Næst var röðin komin að Vanúatú en þar mældist skjálfti upp á 6,7. Lítið var um tjón og ekkert manntjón. Síðan reið skjálfti upp á 6,3 yfir Oregon í Bandaríkjunum og í gær var skjálfti upp á 5,9 í Venesúela. Alls hafa 70 skjálftar mælst á einni viku, flestir hverjir litlir, í Kyrrahafshringnum.
Því hefur verið velt upp í erlendum fjölmiðlum hvort þessir skjálftar séu undanfari enn stærri skjálfta, risaskjálfta, á þessu svæði sem Kyrrahafshringurinn er. Kyrrahafshringurinn er ekki hringur heldur skeifulaga svæði þar sem mikið er af eldfjöllum og flekaskilum. Hringurinn teygir sig í um 40.000 km boga frá Suður-Ameríku til Ástralíu í gegnum vesturríki Bandaríkjanna og Austur-Asíu. Á þessu svæði verða flestir jarðskjálftar á jörðinni þar sem jarðskorpuflekar rekast á.
Lengi hefur verið beðið eftir stórum skjálfta á vesturströnd Bandaríkjanna en ekki er talið útilokað að risaskjálftar verði nærri stórum borgum við Kyrrahafshringinn. Í Kaliforníu er San Andreas sprungan en vitað er að fyrr eða síðar verður stór skjálfti á henni. Um 3.000 manns létust í stórum skjálfta í San Francisco 1906.
Nýlega skrifaði Richard Aster, jarðskjálftafræðingur við Colorado ríkisháskólann, að staðan varðandi jarðskjálfta í Kaliforníu væri alvarlegri en almenningur gerir sér grein fyrir.