fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

ÞAÐ Á AÐ KJÓSA Á VORIN

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. apríl 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikið óráð af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans að hafna kosningum nú í vor. Margt mælir með vorkosningum nú. Þar með hæfist möguleg sáttagjörð við þjóðina en samkvæmt skoðanakönnunum er yfirgnæfandi meirihluti kjósenda fylgjandi alþingiskosningum þegar í stað. Vel væri gerlegt að efna til þingkosninga fyrir lok maímánaðar.

Enga stundarhagsmuni

Á Íslandi er eðlilegt að kjósa á vorin. Þar vegur þungt að yfir sumarmánuðina fer fram grunnvinna fyrir fjárlög komandi árs þannig að fjárlagafrumvarp geti komið fram í haustbyrjun. Þá hefst samtal við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta, heilbrigðisstofnanir, skóla, löggæslu, rannsóknarstofnanir og fulltrúa margvíslegrar þjónustustarfsemi um rekstrarframlag. Þessu samtali verður að gefa góðan tíma. Þetta á ekki að vera andarteppuumræða og hana mega stundarhagsmunir stjórnmálaflokka ekki trufla. Að vísu ber að hafa í huga að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svindlaði inn á okkur lögum um Opinber fjármál sem stórlega hefta Alþingi við fjárlagagerðina á haustin en leggja þeim mun meira upp úr vinnu á fyrri stigum.

Almennt séð gæti það vissulega orðið fjörugt að blanda fjárlagaumræðunni við kosningar. Hversu málefnalegt það yrði skal ósagt látið og hvort fagurgalinn í aðdraganda kosninganna yrði síðan nákvæmlega í samræmi við endanlega niðurstöðu í lokaatkvæðagreiðslu, skal einnig ósagt látið. En gott og vel, ræðum þennan möguleika. Ekki er ég á móti því að lýðræðisvæða fjárlagagerðina!

Ekki slæva vopn Íslands!

Annað sem mælir með kosningum í vor eru undarlegar og varasamar heitstrengingar um afnám gjaldeyrishafta en nýr forsætisráðherra kveður afnám þeirra vera forgangsmál Íslendinga – lífsspursmál sé að losna við höftin og að það verði að gerast fyrir kosningar í haust! Þetta er ekki bara óhyggileg heldur stórvarasöm nálgun. Ekki má gleyma því að gjaldeyrishöft eru hér af illri nauðsyn. Þau eru varnarmúr okkar gegn aflandskrónufólkinu – spekúlöntunum sem komu hingað með gjaldeyri til að hagnast á háum vöxtum og í einhverjum tilvikum sveiflum í verðgildi krónunnar – sveiflum sem þeir sjálfir bjuggu til í siðlausri ásókn sinni í illa fenginn gróða.

Nú stendur til að fara í aflandskrónuuppboð í vor. Útboðið byggir á því að menn lækki gjaldeyriseign sína í verði til þess að komast sem fyrst út úr peningakerfi okkar með hana. Menn bjóða með öðrum orðum niður á við og það gera menn vegna gjaldeyrishaftanna. Þau eru þannig okkar vörn, okkar vopn. Ef hins vegar tímasetning afnáms hafta er ákveðin og dagsetningin yfirlýst, þá hreyfa eigendur aflandskrónanna sig hvergi eða alla vega síður. Með öðrum orðum, tímasetningin slævir sverð Íslands. Liggur þetta ekki í augum uppi? Liggur þá ekki líka í augum uppi að yfirlýsingar um tímasetningu afnáms gjaldeyrishafta eru ekki skynsamlegar?

Sífrið í Viðskiptaráði

Þetta þýðir þá líka að röksemdir stjórnarmeirihlutans um að núverandi ríkisstjórn verði að ljúka afnámi hafta fyrir haustið er ekki bara heimskuleg heldur beinlínis þjóðhagslega varasöm. Síðan er náttúrlega hitt að þótt við höfum hlustað á sífrið í Viðskiptaráði og öðrum hagsmunaaðilum tengdum peningavaldinu, að mál málanna sé að braskarar geti hreyft peninga óhindrað inn og út úr landinu, þá leikur ekki vafi á því í mínum huga að illar afleiðingar haftanna hafa verið stórlega ýktar.

Það hefur verið hálf dapurlegt að hlusta á fulltrúa íslenskra stórfyrirtækja, sem sjálf eru undanskilin gjaldeyrishöftum, taka þátt í þessu harmakveini. Íslenskur almenningur veit varla af þessum höftum, við förum inn og út sem ferðamenn eins og ekkert hafi í skorist og fyrir flest fyrirtæki í erlendum samskiptum er þetta lítið mál í samanburði við hina stóru heildarhagsmuni okkar að passa upp á stöðugleika efnahagskerfisins. Höft á fjármagnsflutningum og þar með stýring á genginu er ekki versta böl Íslands, því fer fjarri.

Gegn auðræði

Annars er mikilvægt að ríkisstjórnin byrji að reyna að skilja hverju fólk er að mótmæla. Það er verið að mótmæla skattaskjólum og þeim sem þangað hafa leitað, það er verið að mótmæla Borgunarhneykslinu, það er verið að mótmæla arðtökunni úr tryggingafyrirtækjunum, það er verið að mótmæla fyrirhugaðri sölu bankanna og minn skilningur er sá að það sé líka verið að mótmæla markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Allt eru þetta mál sem ögra fólki. Auðvitað á fólk að tala yfirvegað og af sanngirni. Það á líka við um Austurvöll. En förum varlega í að tala niður réttmæta gagnrýni í þjóðfélaginu gegn yfirgangi peningavalds og markaðshyggju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 8 klukkutímum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“