fbpx
Föstudagur 22.október 2021

Ólöf Sölvadóttir: Dvergurinn sem Ameríkanar dáðu en Íslendingar fyrirlitu

Þóttist vera eskimói – 122 sentimetrar á hæð – Rauf tengslin

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 2. mars 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þekktasti dvergur Íslandssögunnar hlýtur að vera Ólöf Sölvadóttir, títt nefnd Ólöf eskimói. Hún flutti ung til Vesturheims, átti þar ævintýralega ævi og varð heimsfræg fyrir fyrirlestra sýna. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifaði ævisögu Ólafar árið 2004, Ólöf eskimói: ævisaga íslensks dvergs í Vesturheimi, og ræddi við DV um þessa merku konu.

Dvergar minni máttar

Ólöf var fædd í Blöndudal í Húnavatnssýslum árið 1858 með það sem kallast dvergs-heilkenni og var 122 sentimetrar á hæð fullvaxin. Að alast upp sem dvergur var erfitt á 19. öldinni og sérstaklega á Íslandi. Inga Dóra segir: „Dvergar voru minni máttar, Ólöf hefði endað sem hjú eða niðursetningur á einhverjum bóndabæ hefði hún búið á Íslandi. Fjölskylda hennar var sárafátæk og þess vegna fluttu þau vestur um haf til Ameríku líkt og margir Íslendingar á þessum tíma.“

Átján ára gömul flutti Ólöf til Nýja Íslands með föður sínum, stjúpmóður og systkinum en þar bjuggu þau aðeins í eitt ár. Þá fluttu þau til borgarinnar Winnipeg og Ólöf starfaði sem vinnukona. Í stórborgarlífinu í Ameríku opnuðust dyr fyrir hina dvergvöxnu konu, því hún gat séð fyrir sér með því að sýna í fjölleikahúsum. Þessu áttaði hún sig á þegar kona sem hún vann fyrir rukkaði gesti sína fyrir að fá að sjá Ólöfu að störfum. Ólöf vildi að sjálfsögðu sjálf hagnast á útliti sínu og í fjölleikahúsunum bjó hún til atriði sem hún átti eftir að verða heimsfræg fyrir.

Skáldaði líf inúíta

Ólöf klæddist ísbjarnarfeldi og sagði áhorfendum frá ævi sinni á snjóbreiðum Grænlands sem var auðvitað uppspuni frá rótum því hún hafði aldrei komið til Grænlands. Hún gekk undir nafninu Ólöf Krarer en í seinni tíð hefur hún fengið viðurnefnið Ólöf eskimói. Hún sagði þessar sögur með miklum tilþrifum og leikrænni tjáningu og áhorfendur hrifust af henni. Fljótt varð hún vinsælasta atriðið og segja má að hún hafi sprengt fjölleikahúsin utan af sér. Því tók hún upp á því að ferðast á eigin vegum um Bandaríkin og Kanada og halda fyrirlestra með sama sniði.

„Ólöf varð fræg á því að ferðast um Ameríku og halda fyrirlestra. Hún var mjög eftirsótt og efnaðist vel.“ Ólöf vissi ekkert hvernig lífi inúítar á Grænlandi eða annars staðar lifðu og því þurfti hún að beita mikilli skáldskapargáfu. Til dæmis sagði hún fólki að kuldinn á Grænlandi væri slíkur að börnin fengju aldrei að fara út fyrir snjóhúsið og ef inúítabörn væru óþekk væru þau brennimerkt af mæðrum sínum.

Hún sór heimaland sitt Ísland þó ekki alveg af sér enda átti hún erfitt með að útskýra hvers vegna hún talaði fullkomna íslensku. Í fyrirlestrum sínum sagði Ólöf að hún hefði flutt með fjölskyldu sinni til Íslands um stund. En íslenska veðráttan og hlýjan hentaði inúítunum illa og því hafi hún flutt vestur um haf til Ameríku.

Ólöf var með umboðsmann sem kynnti hana vel og þegar hún var tæplega þrítug, árið 1887, kom út ævisaga hennar á ensku, með lygasögunum um inúítalífið en ekki almúgalífið í Húnavatnssýslunum.

„Dvergar voru minni máttar, Ólöf hefði endað sem hjú eða niðursetningur á einhverjum bóndabæ hefði hún búið á Íslandi.“
Inga Dóra Björnsdóttir „Dvergar voru minni máttar, Ólöf hefði endað sem hjú eða niðursetningur á einhverjum bóndabæ hefði hún búið á Íslandi.“

Ævisagan kennd í háskólum

Þeir sem hafa kynnt sér sögu Ólafar í seinni tíð hafa margir hrifist af henni, klókindum hennar og útsjónarsemi. Hvernig útlensk, dvergvaxin kona, alin upp í sárri fátækt, gat orðið fræg og efnuð í sjálfri Ameríku á þeim tíma þegar konur almennt höfðu lítil réttindi. Að hún hafi vísvitandi logið að áhorfendum sem komu til að sjá hana virðist skipta minna máli. En einnig má segja að hún hafi gert lítið úr menningu inúíta, minnihlutahóps sem almenningur í Ameríku þekkti ekkert.

Trúði fólk því sem hún sagði eða leit það meira á fyrirlestrana sem skemmtun?

„Það trúði því sem hún sagði. Ævisaga hennar var notuð sem kennslubók bæði á barnaskólastigi og á háskólastigi.“

Gerðu inúítar sjálfir engar athugasemdir við þessa fyrirlestra hennar?

„Nei, enginn Grænlendingur vissi af henni. Fréttir bárust seint og illa á þessum tímum. Inúítar í Kanada og Alaska vissu greinilega ekkert um hana heldur.“

„Hún lézt ekki þekkja hann, og þótti honum það ekki miður“

Íslendingar skömmuðust sín

Ólöf giftist aldrei og átti engin börn. Hún kom aldrei aftur til Íslands og lést 76 ára gömul árið 1934 í Bandaríkjunum. Hún rauf í raun og veru öll tengsl við Ísland þegar hún flutti út. Þrátt fyrir frægð hennar í Ameríku vissu ekki margir Íslendingar af tilvist hennar og athæfi. „Sumir Íslendingar í Vesturheimi vissu af henni, en þeir afhjúpuðu hana ekki.“ Inga segir að margir hafi þó verið hneykslaðir á henni.

Árið 1902 er skrifuð frétt í dagblaðinu Lögbergi frá Ameríku og er hún ekki skjallandi:
„Ólöf Krarer – sem réttu nafni heitir Ólöf Sölvadóttir og strauk héðan úr bænum fyrir meira en tuttugu árum síðan – á að halda fyrirlestur hér í bænum 10. næsta mánaðar fyrir Young Men’s Christian Association. Umtalsefni hennar á að vera „Búningar og lifnaðarhættir íslenskra eskimóa (!!!) Það er merkilegt, hvernig Ólöfu þessari hefir tekist öll þessi ár að spila á vitleysu tilheyrenda sinna; og hún má vera Íslendingum þakklát fyrir að hafa ekki komið upp um hana öllum þvættingnum og lýginni, sem hún hefur gert að lífsstarfi sínu.“

Í Alþýðublaðinu frá 1937 segir að Magnús Björnsson, fósturbróðir Ólafar, hafi eitt sinn rekist á hana í sirkus skömmu eftir að hún hóf að sýna. „Hún lézt ekki þekkja hann, og þótti honum það ekki miður.“

Engar minningargreinar voru ritaðar um Ólöfu í íslenskum blöðum en í amerískum var henni gert hátt undir höfði í kjölfar andlátsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Sambandsdeildin: Alfons átti þátt í stærsta ósigri Mourinho á ferlinum – Tottenham tapaði á útivelli

Sambandsdeildin: Alfons átti þátt í stærsta ósigri Mourinho á ferlinum – Tottenham tapaði á útivelli
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Valdi fullkomna nafnið fyrir dóttur sína – Hefur verið að bera það rangt fram og hatar það núna

Valdi fullkomna nafnið fyrir dóttur sína – Hefur verið að bera það rangt fram og hatar það núna
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Egill minnist móðurbróður síns sem átti ótrúlegt lífshlaup – Var goðsagnapersóna í lifanda lífi í Eþíópíu

Egill minnist móðurbróður síns sem átti ótrúlegt lífshlaup – Var goðsagnapersóna í lifanda lífi í Eþíópíu
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Ronaldo skákar liðum á borð við Arsenal, Chelsea og Juventus ef skoðaður er fjöldi sigurleikja í Meistaradeild Evrópu

Ronaldo skákar liðum á borð við Arsenal, Chelsea og Juventus ef skoðaður er fjöldi sigurleikja í Meistaradeild Evrópu
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Kynlífsráðin sem Gwyneth Paltrow gefur börnum sínum – „Ég reyni að vera bara forvitin“

Kynlífsráðin sem Gwyneth Paltrow gefur börnum sínum – „Ég reyni að vera bara forvitin“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hvers vegna voru þau sýknuð?

Hvers vegna voru þau sýknuð?
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Arteta brugðið eftir að hann las yfirlýsingu Bruce þar sem hann lýsir aðkasti sem hann varð fyrir

Arteta brugðið eftir að hann las yfirlýsingu Bruce þar sem hann lýsir aðkasti sem hann varð fyrir
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Isavia gefur mæla til að fylgjast með loftgæðum í Sandgerði og Garði

Isavia gefur mæla til að fylgjast með loftgæðum í Sandgerði og Garði