fbpx
Mánudagur 06.febrúar 2023

Glæpasaga frá Gloucester-skíri – Dauðadómur innsiglaði örlög þeirra

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 16. febrúar 2020 22:00

Enskur dómsalur Perry-mæðginin kynntust ensku réttarfari af eigin raun.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frásögn þessi hefst í ágúst, árið 1660, í bænum Chipping Campden í Gloucester-skíri á Englandi. Þá bjó þar karl einn, William Harrison, sjötugur að aldri. Hann ákvað, þann 16. þess mánaðar, að rölta til Charingworth, þorps sem lá í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Chipping Campden, átti þar meðal annars eitthvert erindi við leiguliða í Ebrington.
Nú, Harrison gamli skilaði sér ekki heim á ætluðum tíma og eiginkonu hans leist ekki á blikuna og brá á það ráð að senda einkaþjón hans, John Perry, til að grennslast fyrir um hann.

Árangurslaus leit

Leið nú dagurinn og næsta nótt og þegar djarfaði fyrir dögun varð spúsu Harrison ljóst að hvorki hann né John Perry höfðu skilað sér. Sendi hún þá son þeirra hjóna, Edward, til leitar að tvímenningunum. Á leið hans til Charingworth mætti hann John Perry, sem sagði leit sína að húsbóndanum engum árangri hafa skilað.

Edward og John urðu samferða til Ebrington og náðu tali af áður nefndum leiguliða. Sá sagði að vissulega hefði Harrison litið við kvöldið áður, en hann gæti engu bætt við þær upplýsingar.

Lá þá leið Edwards og Johns til Paxford en leit þeirra þar bar ekki árangur.

Blóðugur fatnaður finnst

Þeir sáu sitt óvænna og lögðu af stað heim til Chipping Campden. Á leið sinni þangað barst þeim til eyrna orðrómur þess efnis að einhverjar eigur Harrison gamla hefðu fundist á aðalveginum á milli Chipping Campden og Ebrington. Þar á meðal voru hattur, skyrta og hálstau.

Enskur dómsalur
Perry-mæðginin kynntust ensku réttarfari af eigin raun.

Virtist sem hatturinn hefði verið skorinn með beittu áhaldi og skyrtan og hálstauið voru ötuð blóði. William Harrison var þó hvergi að sjá, hvorki lífs né liðinn. Af verksummerkjum mátti þó ætla að eitthvað miður huggulegt hefði átt sér stað, þótt engar grjótharðar vísbendingar lægju fyrir.

John opnar sig

Lögreglan gat ekki gengið út frá nokkru vísu og því fátt annað í stöðunni en að þjarma að John Perry. Við yfirheyrslu sagðist John vita að Harrison hefði verið myrtur, en fullyrti að hann sjálfur væri saklaus.

Við frekari yfirheyrslur sagði John að Richard, bróðir hans, og Joan, móðir hans, hefðu banað Harrison vegna peninga. Þau hefðu síðan falið líkið.

Richard og Joan virtust koma af fjöllum og vísuðu til föðurhúsanna fullyrðingum um að þau hefðu myrt Harrison eða væru yfirhöfuð viðriðin hvarf hans.

John aftur á móti stóð fastur á sinni frásögn; þau myrtu Harrison og fleygðu líki hans í myllutjörn. Tjörnin var slædd en ekkert lík fannst.

Sannfærandi vitnisburður

Í fyrstu fyrirtöku beindust sjónir að ákæru sem sneri að ráni, enda engu líki til að dreifa. Mæðginin Richard og Joan ítrekuðu að þau væru saklaus, en vitnisburður Johns sannfærði kviðdóm um sekt þeirra.

Það var kannski engin furða því John sjálfur virtist ekki hafa nokkra ástæðu til að ljúga til um málið. Hann sagði reyndar að hugmyndin um að ræna Harrison hefði verið hans. Enn fremur sagði John að Richard og Joan hefðu áður seilst í pyngju Harrison; árið áður hefðu þau stolið frá honum 140 pundum, sem var dágóð summa í þá daga.

John sagðist einnig hafa undirbúið jarðveginn fyrir ránið með því að ljúga að hann sjálfur hefði lent í klóm ræningja nokkrum vikum áður en William Harrison hvarf.

Breytt staða mæðginanna

Þegar þarna var komið sögu voru móðirin og synir hennar tveir aðeins ákærð fyrir rán því dómarinn sá ekkert vit í morðákæru í ljósi þess að ekkert lík var til staðar.

Verjandi þeirra ráðlagði þeim að játa sig sek um rán, um yrði að ræða fyrsta afbrot þeirra og því yrði þeim veitt frelsi samkvæmt lagaákvæði þar að lútandi. Og það gerðu þau.

Það átti eftir að koma í ljós að það var mjög misráðið því vorið 1661 kom rétturinn saman á ný og þá vegna morðákæru á hendur mæðginunum.

Í hæsta gálga
John, Richard og Joan mættu örlögum sínum saman.

Þar sem þau höfðu lýst sig sek um rán fyrrum voru þau glæpamenn í augum réttarins og þar af leiðandi engrar miskunnar að vænta úr þeirri átt.

Í þetta skipti snerist John á sveif með bróður sínum og móður og öll sögðust þau saklaus af morði. John sagðist ekki hafa verið heill á geði þegar hann hélt hinu andstæða fram. Þau töluðu fyrir daufum eyrum, voru sakfelld og dæmd til dauða.

Norn í þokkabót

Perry-mæðginin mættu örlögum sínum saman á Broadway-hæð í Gloucester-skíri. Á gálganum ítrekuðu bræðurnir sakleysi sitt, en það var frekar seint um rassinn gripið.

Meðan á málaferlunum stóð höfðu einhverjir sem að þeim stóðu, komist að því að sennilega væri Joan Perry norn í ofanálag og því var hún hengd fyrst, því mögulega hefði hún hneppt syni sína í álög sem gerði þeim ókleift að játa sig seka, segir sagan.
Þarna lauk sem sagt þætti Perry-mæðginanna í þessari frásögn, sem þó er engan veginn lokið.

Laumufarþegi frá Tyrklandi

Árið 1662 kom til hafnar í Dover á Englandi skip frá Lissabon. Frá borði gekk William Harrison og var ekki laust við að heimkoma hans vekti margar spurningar.

Harrison sagði að honum hefði verið rænt og ræningjar hans sært hann með sverði á mjöðm og síðu, vasar hans hefðu verið fylltir af peningum og hann síðan fluttur á hestum til Deal-hafnar í Kent og þaðan af landi brott.

Hann hefði síðan verið færður yfir á tyrkneskt skip og að lokum seldur í þrældóm í Tyrkjaveldi.

Þrælahald í Tyrkjaveldi
Kemur við sögu í hvarfi Williams Harrison.

Eftir eitt ár og níu mánuðum betur hafði húsbóndi hans dáið og Harrison þá farið niður að höfn, laumast um borð í portúgalskt skip og að lokum komist til Dover, með viðkomu í Lissabon.

Fjöldi spurninga, fátt um svör

Frásögn Harrison svaraði færri spurningum en hún vakti. Hví ætti nokkur að ræna sjötugum karli, fylla vasa hans af peningum og selja hann síðan í þrældóm fyrir smáaura?

Hvernig gat reiðtúr Harrison og ræningja hans, frá Chipping Campden, farið fram hjá öllum?

Af hverju hefðu þeir sem rændu Harrison og særðu að koma honum til heilsu aftur, sjötugum manninum?

Það er margt í mörgu og það eina sem virtist ljóst þegar upp var staðið, var að Perry-mæðginin voru saklaus hengd. Að sögn hefur þeim ekki enn verið veitt uppreisn æru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Afsökun Guardiola eftir leik í gær vekur mikla furðu – Ferðalagið til London er svo erfitt

Afsökun Guardiola eftir leik í gær vekur mikla furðu – Ferðalagið til London er svo erfitt
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Bjartsýnin dugði ekki til – Taj Mahal gjaldþrota og aðeins nokkrir tíu þúsund kallar fundust í búinu

Bjartsýnin dugði ekki til – Taj Mahal gjaldþrota og aðeins nokkrir tíu þúsund kallar fundust í búinu
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Vikan á Instagram – „Draumastelpa en láttu þig dreyma“

Vikan á Instagram – „Draumastelpa en láttu þig dreyma“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hegðun Mason Greenwood á Instagram um helgina vekur gríðarlega athygli

Hegðun Mason Greenwood á Instagram um helgina vekur gríðarlega athygli
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Segir að skjótasta leiðin til friðar sé að vopna Úkraínu

Segir að skjótasta leiðin til friðar sé að vopna Úkraínu
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Segir að Zelenskyy sé öskureiður

Segir að Zelenskyy sé öskureiður
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Ætlaði að kveikja í húsinu hans – Klikkaði á einu mikilvægu atriði

Ætlaði að kveikja í húsinu hans – Klikkaði á einu mikilvægu atriði
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Ítalía: Martinez tryggði sigur í grannaslagnum – Napoli að tryggja sér titilinn

Ítalía: Martinez tryggði sigur í grannaslagnum – Napoli að tryggja sér titilinn