Byran Koji Uyesugi þjáðist af ofsóknaræði – Hann ákvað að kenna ofsækjendum sínum lexíu
Byran Koji Uyesugi fæddist í Honolulu á Hawaii 1959. Hann var að mati félaga sinna rólegheita náungi og seinþreyttur til vandræða. Það breyttist þegar hann mætti til vinnu hjá Xerox 2. nóvember 1999.
Árið 1984 hóf Byran störf sem tæknimaður hjá Xerox-fyrirtækinu og dundaði í frístundum við áhugamál sín sem meðal annars tengdust eldi gullfiska og Koi-fiska. Einnig hafði hann dálæti á skotvopnum og átti árið 1999 25 byssur, sem allar voru skráðar á hann.
Byran átti að sögn föður hans, Hiroyuki, ekki við nokkur vandamál að stríða fyrr en hann hóf störf hjá Xerox og árið 1988, eftir að móðir hans dó, fór Byran að kvarta yfir ágengum höfuðverk. Byran hafði á yngri árum fengið slæmt höfuðhögg er hann lenti í árekstri í bifreið föður síns.
Erfiðleikar Byrans hófust fyrir alvöru eftir að hann var fluttur milli deilda innan Xerox og hann fór að brigsla vinnufélögum um hitt og þetta að ósekju; ofsóknir, skemmdarverk. Áttu vinnufélagar hans sífellt erfiðara með að umbera bræðisköst Byrans.
Svo virðist sem Byran hafi að lokum verið sniðgenginn og eðli málsins samkvæmt upplifði hann einangrun og fjarlægðist enn frekar vinnufélagana. Reiði Byrans jókst hröðum skrefum og sögðu sumir á vinnustaðnum að hann hefði hreinlega hóta þeim dauða.
Árið 1993 var Byran gert að undirgangast geðmat og sækja reiðistjórnunarnámskeið eftir að hafa verið handtekinn fyrir skemmdarverk. Síðar kom í ljós að Byran hafði talað um að fremja fjöldamorð á vinnustað sínum fyrir 1995.
Rannsókn geðlækna leiddi í ljós að Byran þjáðist af persónuleikaröskun og ofsóknaræði. Hann sagðist heyra raddir og að hans var hann eltur af svörtum skugga. Byran hafði á tilfinningunni að vinnufélagar hans stunduðu einelti og baktal í hans garð.
Að morgni 2. nóvember, 1999, mætti Byran til vinnu og beið ekki boðanna. Vopnaður 9 millimetra Glock-skammbyssu gekk hann berserksgang og þegar hann flúði af vettvangi voru sjö vinnufélagar hans liðin lík; Christopher Balatico, 33 ára, Ford Kanehira, 41 árs, Ronald Kataoka, 50 ára, Ronald Kawamae, 54 ára, Melvin Lee, 58 ára, Peter Mark, 46 ára og John Sakamoto, 36 ára.
Lögreglan lokaði nokkrum götum í miðbæ Honolulu og fyrir hádegi hafði henni tekist að króa Byran af. En björninn var ekki unninn því það var ekki fyrr en eftir fimm tíma þrjátefli, um þrjú leytið, sem Byran játaði sig sigraðan og gafst upp.
Réttarhöld yfir Byran Uyesugi hófust 15. maí, 2000, og tóku einn mánuð. Byran lýsti sig ósakhæfan sökum geðveiki og sagði sér hafa liðið sem úrhraki í vinnunni og hann hefði óttast að kollegar hans ætluðu að láta reka hann.
Geðlæknar sem verjendur leiddu fram studdu fullyrðingar Byrans, en geðlæknir saksóknara sagði að þrátt fyrir að hann sjálfur teldi Byran vera geðklofa hefði hann framið fjöldamorðið í bræðiskasti – hann hefði verið óttast að verða rekinn og fyllst reiði sem hann fékk síðan útrás fyrir.
Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Byran væri sakhæfur og sekur um sjö morð. Dauðarefsing er ekki valkostur á Hawaii og fékk Byran því lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn.
Byran áfrýjaði dómnum og árið 2002 staðfesti Hæstiréttur Hawaii fyrri úrskurð. Aðstandendur fórnarlamba Byrans höfðuðu, árið 2005, mál á Xerox-fyrirtækinu og þeirri sjúkrastofnun sem staðið hafði að geðmati Byrans fyrir fjöldamorðið, á þeim grunni að hvort tveggja hefði horft fram hjá augljósum merkjum um geðrænan óstöðugleika Byrans. Samkomulag náðist með aðilum.
Xerox-fyrirtækið lagði niður starfsemi í þeirri byggingu sem breyttist í vígvöll árið 1999 og stóð hún auð til ársins 2004 þegar framleiðendur sjónvarpsþáttanna Lost komu þar upp aðstöðu til að kvikmynda innisenur.