Lawrencia fékk dóm fyrir að myrða Christine – Hélt ávallt fram sakleysi sínu
Einu sinni var, og er kannski enn, lögreglumaður í Milwaukee í Bandaríkjunum. Sá heitir Elfred Schultz, en var aldrei kallaður annað en Fred.
Fred hafði verið kvæntur konu að nafni Christine, hjónabandið ekki gengið upp og þau á endanum skilið, eins og gengur og gerist. Fred gekk síðar, á Valentínusardag 1981 nánar til tekið, í hjónaband með Lawrenciu Bembenek. Hin nýja brúður hafði á sínum tíma einnig unnið fyrir lögregluna í Milwaukee, en verið rekin í september 1980. Í kjölfar brottrekstrarins höfðaði Lawrencia mál á hendur lögregluembættinu á grundvelli kynferðislegrar mismununar en það mál verður ekki reifað hér.
Lawrencia vann síðar um stutt skeið við uppvörtun í Playboy-klúbbi í borginni Lake Geneva í Wisconsin.
Að þessum formála loknum er ráð að snúa sér að atburðum 28. maí 1981. Að kvöldi þess dags var Christine, fyrrverandi eiginkona Freds, myrt á heimili sínu í Milwaukee. Synir hennar tveir, Sean, 11 ára, og Shannon, 7 ára, voru á heimilinu þegar Christine var ráðinn bani.
Synir Christine lýstu morðingja móður sinnar sem grímuklæddum karlmanni í svörtum skóm og grænum hermannastakk. Í upphafi beindust sjónir lögreglunnar að Fred, en hann hafði fjarvistarsönnun fyrir umrætt kvöld sem fékkst staðfest.
En lögreglan hélt sig nærri ranni Freds og Lawrenciu og svo fór að Lawrencia var handtekin. Lögreglan taldi ekki loku fyrir það skotið að Lawrencia hefði viljað Christine feiga, enda þurfti Fred mánaðarlega að reiða fram 363 Bandaríkjadali í framfærslueyri fyrir Christine auk 330 dala í meðlag. Var það mat lögreglunnar að Lawrenciu hefði þótt því fé betur varið í hana sjálfa en þá fyrrverandi.
Ákæruvaldið staðhæfði við réttarhöldin að eingöngu Lawrencia hefði í senn haft ástæðu, tækifæri og getu til að fremja ódæðið. Hún hefði auk þess glímt við fjárhagslega örðugleika, sem studdi kenningar lögreglunnar.
Til að bæta gráu ofan á svart var morðvopnið eign Freds, skammbyssa sem var skráð á hann prívat og persónulega en ekki vinnuvopn hans.
Sean, eldri sonur Christine, fullyrti að það hefði ekki verið Lawrencia sem hann sá myrða móður sína. En Lawrencia hafði enga fjarvistarsönnun og hvað sem öllu öðru leið fékk hún lífstíðardóm í mars 1982 sem hún afplánaði í Taycheedah-betrunarfanglesinu í Wisconsin.
Lawrencia áfrýjaði dómnum í þrígang án árangurs, en til tíðinda dró 15. júlí 1990. Með aðstoð nýs kærasta, Dominic „Nick“ Gugliatto, bróður samfanga síns, tókst Lawrenciu að flýja úr fangelsinu. Skötuhjúin fóru til Thunder Bay í Ontario í Kanada en voru gripin þar glóðvolg þremur mánuðum síðar.
Flóttinn varð tilefni bóka og kvikmynda og, síðast en ekki síst, slagorðs stuðningsmanna Lawrenciu „Run Bambi Run“ – hlauptu Bambi, hlauptu.
Lawrencia lagði þó ekki árar í bát og, eins undarlegt og það kann að virðast, fékk hún ný réttarhöld í kjölfar flóttans. Lyktir þeirra réttarhalda urðu að Lawrencia var sek fundin um manndráp og refsingin ákveðin sá tími sem hún hafði þá þegar afplánað. Lawrencia varð frjáls kona í nóvember 1992.
Lawrencia skrifaði bók um reynslu sína, Woman on Trial, en líf hennar varð aldrei samt. Hún glímdi við lagaleg og persónuleg vandamál; var handtekin fyrir að hafa marijúana í fórum sínum og lýsti sig gjaldþrota. Hún smitaðist af lifrarbólgu C og glímdi við fleiri heilsutengd vandamál.
Árið 2002 var tekinn af henni annar fótleggurinn, fyrir neðan hné, eftir að hún féll, eða stökk, út um glugga á þriðju hæð húss. Lawrencia Bembenek andaðist 20. nóvember 2010. Banamein hennar var lifrar- og nýrnabilun.
Þess er vert að geta að Lawrencia hélt ávallt fram sakleysi sínu og fullyrti að lögreglan hefði gert mistök varðandi ýmis mikilvæg sönnunargögn. Einnig dró eitt lykilvitna ákæruvaldsins, Judy Zess, framburð sinn til baka og sagðist hafa verið beitt þrýstingi. Stuðningsmenn Lawrenciu fullyrtu einnig að hún hefði verið skotspónn lögreglunnar í Milwaukee vegna þess að hún hafði verið lykilvitni í alríkisrannsókn á spillingu innan lögreglunnar.
Sumir viðruðu þá skoðun að Fred hefði sjálfur skipulagt morðið á Christine og fengið einhvern til að framkvæma það. Sem mögulegur morðingi var nefndur til sögunnar Frederick Horenberger, atvinnuglæpamaður sem hafði unnið með Fred um skeið. Frederick var fyrrverandi kærasti áðurnefndrar Jude Zess og hafði, dulbúinn, nokkrum vikum fyrir morðið á Christine barið Judy til óbóta. Frederick fékk síðar tíu ára dóm fyrir það.
Samkvæmt nokkrum eiðsvörnum yfirlýsingum, sem komu í ljós eftir að Lawrencia var sakfelld, gumaði Frederick sig af því, við samfanga sína, að hafa myrt Christine. Opinberlega neitaði Frederick nokkurri aðild að morðinu og hélt sig við þá fullyrðingu þar til hann framdi sjálfsmorð 1991.