Sendiherra Kínverja, Jin Zhijian, afhenti bæjarstjóra Reykjanesbæjar tvö þúsund andlitsgrímur í liðinni viku. Tilefnið var heimsókn bæjarstjórans í kínverska sendiráðið 22. júlí síðastliðinn.
Víkurfréttir greindu fyrst frá.
Tilefni heimsóknar bæjarstjórans var að endurgjalda heimsókn kínverska sendiherrans í Reykjanesbæ, þar sem hann heimsótti ráðhúsið og fundaði með bæjarstjóranum. Segir Víkurfréttir að þar hafi verið rætt um að efla vinabæjarsamstarf milli Reykjanesbæjar og Xianyang borgar, en bæjarfélögin hófu samstarf sín á milli árið 2014.
Gjöfin, 2.000 andlitsgrímur, á rætur að rekja í þetta vinabæjarsamstarf, en borgaryfirvöld í Xianyang vildu gefa grímur og styðja þannig við baráttuna við kórónuveirufaraldurinn. Segir í frétt Víkurfrétta að grímurnar verða notaðar í viðkvæmum stofnunum og starfsstöðvum Reykjanesbæjar fyrir bæði starfsmenn og aðra gesti sem þangað koma.
Á meðfylgjandi mynd má sjá auk fána Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína, áletrun á andlitsgrímukassanum þar sem stendur „Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi.“