Þetta felur í sér að eldri kynslóðirnar hagnast á kostnað þeirra yngri. Ástæðan er ekki að eldri kynslóðirnar séu duglegri, snjallari, betur menntaðar eða vinnusamari en þær yngri. Aðalástæðan er tilviljun.
Fasteignaverð hefur hækkað í stærstu og eftirsóttustu borgum Evrópu og er Reykjavík þar engin undantekning.
Jótlandspósturinn bendir á að þessi þróun skipti kynslóðunum í A- og B-lið. A-liðið samanstendur af eldri kynslóðunum sem voru svo heppnar að geta keypt sér fasteign áður en hækkunarbylgjur síðustu ára skullu á. B-liðið samanstendur af unga fólkinu sem á margt erfitt með að kaupa sér þak yfir höfuðið í dag vegna verðsins og sumir geta það einfaldlega ekki.
Þetta er auðvitað merki um vaxandi ójöfnuð og segja margir alþjóðlegir sérfræðingar að þetta sé einfaldlega tifandi pólitísk tímasprengja.
Ákveðið uppgjör við þetta og krafa um að allir hafi rétt til og geti keypt sér fasteign fer nú vaxandi víða um Evrópu. Í mörgum evrópskum stórborgum hefur komið til mótmæla vegna stöðunnar og hefur ekki síst ungt fólk mótmælt stöðunni og blásið til orustu varðandi það sem það telur grundvallarmannréttindi – þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði.
Jaume Collboni, borgarstjóri í Barcelona, sagði nýlega að „fasteignakrísan sé nú jafn mikil ógn við ESB og Rússland“. „Við eigum á hættu að verkafólk og millistéttin komist að þeirri niðurstöðu að lýðræðið ráði ekki við að leysa stærsta vanda þeirra,“ sagði hann.
Það er ekki erfitt að sjá af hverju hann komst að þessari niðurstöðu þegar horft er á stöðuna á fasteignamarkaði í allri Evrópu.
Í mörgum borgum er staðan sú að helmingur tekna margra fer í húsaleigu og flestir í þessum hópi eiga engan möguleika á að eignast fasteign. Það gerir stöðuna ekki betri að mikill fjöldi íbúða er aðeins notaður til útleigu fyrir ferðamenn, til dæmis í gegnum Airbnb.
Ungar barnafjölskyldur búa við sífellt óöruggari aðstæður og heimilislausum fjölgar. Það verður sífellt algengara að fólk neyðist til að fara á milli vina og sofa á sófanum hjá þeim.
Samkvæmt tölum frá Evrópuþinginu hækkaði fasteignaverðið í ESB um tæplega 50% frá 2015 til 2023. Frá 2010 til 2022 hækkaði húsaleiga um 18%.
Fasteignir eru orðnar aðaldrifkraftur ójöfnuðar og auka þannig muninn á milli þeirra sem eiga ekki fasteign og þeirra sem eiga fasteign og þeirra sem geta eignast fasteign í framtíðinni (oft með aðstoð frá foreldrum sínum).
Þetta hefur nú þegar haft miklar afleiðingar víða um álfuna, bæði pólitískar og samfélagslegar.
Fasteignakreppan er næring fyrir evrópska öfgahægrimenn sem juku fylgi sitt mjög mikið í kosningunum til Evrópuþingsins á síðasta ári.
Rannsóknir hafa sýnt að hinn mikli stuðningur við AfD í Þýskalandi, Rassemblement National í Frakklandi, Fratelli d‘Italia á Ítalíu og Party for Freedom í Hollandi tengist hækkandi fasteignaverði. Margir kjósendur þessara flokka tengja skort á húsnæði á viðráðanlegu verði við innflytjendastrauminn til álfunnar.