

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, segist ekki eiga orð yfir grein sem lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson birti í dag hjá Vísi. Þar leggur Ómar til að Ísland gangi til samningaviðræðna við Donald Trump Bandaríkjaforseta um nýjan varnarsamning. Ómar telur að breytt heimsmynd vegna ríkisstjórnar Trumps sé ekki ógn fyrir Ísland heldur tækifæri.
Helgi Hrafn furðar sig á greininni og spyr hvernig nokkrum geti dottið það til hugar að semja við þjóðarleiðtoga sem hafi undanfarið ár sýnt það skýrt að hann hiki ekki við að svíkja samninga sem jafnvel hann sjálfur hefur gert.
„Stundum á ég ekki orð yfir því hvað fólk getur verið bláeygt í utanríkismálum. Mér leiðist að tala svona niður til fólks, en ég bara get ekki lýst þessu heiðarlega öðruvísi.
Hér stingur hámenntaður einstaklingur, sem greinilega þekkir söguna lauslega og málaflokkinn eitthvað, upp á því að við „semjum við Trump“.
Hvernig gerist það, eftir allt sem á undan hefur gengið, að nokkurri einustu sálu detti það til hugar að það sé að marka einhverja samninga sem eru gerðir við Donald Trump?“
Helgi rekur að Trump sé einmitt núna að hóta því að innlima Grænland, land sem tilheyrir Danmörku sem er bandamaður Bandaríkjanna í NATO. Bara um helgina hafi Trump brotið alþjóðalög þegar hann rændi þjóðarleiðtoga Venesúela til að fá aðgengi að olíuauðlindum. Hótanir Trumps um Grænland séu til þess fallnar að draga undan fælingarmætti NATO gagnvart Rússlandi, landi sem hatar NATO og hefur þegar hafið innrásarstríð gegn Úkraínu og gert margítrekaðar smáárásir á NATO-ríki til að ögra bandalaginu og sjá hvernig það bregst við.
„Við erum hér á barmi heimsstyrjaldar við mesta kjarnorkuveldi heimsins, hvers eini fælingarmáttur er NATO og akkúrat þá tekur Donald Trump upp á því að grafa enn meira undan alþjóðalögum og hóta nánasta bandamanni sínum, að tilefnislausu í þokkabót.“
Það sé raunhæfur möguleiki að Trump geri alvöru úr hótunum sínum og innlimi Grænland og því galið að halda að Trump sé aðili sem hægt sé að treysta í milliríkjasamningum.
„Hvernig dettur fólki til hugar að það sé hægt að treysta Donald Trump til að standa við nokkurn skapaðan hlut? Hvað myndi hann aldrei svíkja? Hvað væri svo sturlað, svo svikult og heimskulegt að Donald Trump myndi aldrei gera það?
Aftur, mér leiðist að tala svona niður til fólks, en bara hingað og ekki lengra. Þetta er galið, og við getum ekki leyft okkur að láta eins og þetta sé eitthvað annað en galið.“
Ómar leggur til í grein sinni breyta óvissu í vissu með nýjum varnarsamningi. Þar væri til dæmis hægt að leggja blátt bann við því bandaríksi herinn noti Ísland til árásaraðgerða. Þanig væri hægt að koma í veg fyrir að Ísland dragist i nn í aðgerðir sem brytu í bága við þjóðarétt.
„Samantekið má segja að alþjóðakerfið sem mótaðist eftir Seinni heimsstyrjöld – byggt á reglum Sameinuðu þjóðanna, NATO og síðar Evrópusambandsins – er að líða undir lok. Ef Ísland ætlar að bíða eftir því sem verða vill, verðum við að endingu áhorfendur að eigin örlögum. Í augnablikinu höfum við hins vegar val. Við getum tekið þátt í að móta eigin framtíð með skýrum samningum sem vernda bæði öryggi okkar og fullveldi – eða beðið þar til aðrir ákveða það fyrir okkur.“