fbpx
Miðvikudagur 07.janúar 2026
Fréttir

Verður Grænland yfirtekið með valdi? – Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 5. janúar 2026 11:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú spurning er áleitin í kjölfar aðgerða Bandaríkjamanna í Venesúela hvort hætta sé á því að Bandaríkin geri alvöru úr þeirri hótun sinni að innlima Grænland, sem hluta af þeirri stefnu sinni að halda yfirráðum yfir vesturhveli jarðar til að tryggja öryggi sitt og hagsmuni.

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir mikilvægt í þessu samhengi að hafa í huga að stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini. Hilmar Þór fer yfir þessi máli í viðtali við DV:

„Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að Bandaríkin ætli að stýra Venesúela í kjölfar þess að hafa gert loftárásir á höfuðborg landsins og handtekið forsetann, Nicolás Maduro. Jafnframt hefur hann sagt að bandarísk fyrirtæki ætli að byggja upp olíuinnviði Venesúela og gera olíuiðnaðinn arðbæran að nýju. Þó að Venesúela eigi stærstu olíulindir heims gæti óvissa og pólitísk áhætta í landinu þó dregið úr áhuga fjárfesta á dýrum langtímafjárfestingum.

Óljóst er hversu langan tíma Bandaríkin ætla að stýra landinu, hvað marga hermenn þyrfti til ef taka ætti landið með hervaldi og halda því, eða hvað það myndi kosta. Venesúela er stórt, 916.445 ferkílómetrar og íbúar eru um 30 milljónir.

Maduro verður leiddur fyrir dómara í New York á næstunni þar sem formlega verða birtar ákærur á hendur honum sem meðal annars tengjast fíkniefnum.

Ýmsir þingmenn á Bandaríkjaþingi, einkum meðal demókrata, hafa gagnrýnt aðgerðirnar og benda á slæma reynslu Bandaríkjanna af yfirtöku annarra landa og því sem kallað er „nation building.“ Ýmsar spurningar vakna líka um lögmæti þessara aðgerða, innrásar í sjálfstætt ríki og svo handtöku þjóðarleiðtoga. Langsótt er að Venesúela hafi ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna en kannski hafa stjórnvöld þar í landi átt of vingott við Kína, Rússland, Íran o.s.frv.?

Leiðtogar víða um heim hafa lýst yfir áhyggjum af aðgerðum Bandaríkjanna og stöðunni í Venesúela. Þetta vekur upp ýmsar spurningar líka varðandi stöðuna í öðrum heimshlutum, t.d. á norðurslóðum og óvissuna þar. Trump forseti hefur nýlega ítrekað að Bandaríkin þurfi allt Grænland vegna þjóðaröryggis Bandaríkjanna.“

Áhuginn á Grænlandi nær langt aftur í tímann

Hilmar veltir upp þeirri spurningu hvort Bandaríkjamenn eigi eftir að yfirtaka Grænland með valdi í nafni þjóðaröryggishagsmuna sinna. „Forsætisráðherra Danmerkur hefur að vonum miklar áhyggjur. Hún ásamt fleiri leiðtogum Evrópu hefði fyrr mátt hafa það hugfast að stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini.“

Hilmar bendir á að Donald Trump hafi fyrst gert tilkall til yfirráða og eignarhalds á Grænlandi árið 2019. Áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi nái hins vegar lengra aftur í tímann.

„Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi er ekki alveg nýr af nálinni. Því hefur verið haldið fram að Harry S. Truman, þá forseti Bandaríkjanna, hafi sýnt áhuga á að kaupa Grænland árið 1946. Kaup á landi eru ekki óþekkt í sögu Bandaríkjanna sem keyptu t.d. Alaska af Rússum, Louisiana af Frökkum og Flórída af Spáni.

Danmörk fer með utanríkismál Grænlands fyrir hönd Grænlendinga. Bandaríkin og Danmörk eru bæði NATO ríki. Árið 2019 neitaði forsætisráðherra Danmerkur að selja Grænland eða færa yfirráð Grænlands til Bandaríkjanna og harðneitar yfirtöku einnig nú. Árið 2019 lýsti Donald Trump viðbrögðum forsætisráðherra Danmerkur sem „nasty“.

Vegna stríðsins í Úkraínu er Danmörk nú háðari Bandaríkjunum en árið 2019 og er eins og Ísland undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna. Sumir leiðtogar NATO ríkja óttast að Bandaríkin taki öryggisregnhlífina í burtu, líka vegna ágreinings milli Bandaríkjanna og Evrópuleiðtoga um lausn Úkraínustríðsins.“

Auðlindir Grænlands verða nýtanlegar

„Hafa verður í huga að vegna loftlagsbreytinga eru nú miklar auðlindir Grænlands, sem áður voru óaðgengilegar, að verða nýtanlegar. Líklegt er að þessar auðlindir, t.d. sjaldgæfir málmar, séu ekki síður ástæða endurnýjaðs áhuga Trump á Grænlandi, en þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Þó gæti aðgangur að sjaldgæfum málmum orðið mál sem tengist þjóðaröryggi Bandaríkjanna, þó að það réttlæti ekki ummæli Trumps og hugsanlegar aðgerðir. Eflaust gætu Bandaríkin líka keypt málma af Grænlandi ef vilji væri fyrir hendi án þess að fá yfirráð yfir landinu og samið um fleiri herstöðvar eftir því sem þörf er talin á.

NATO ríkið Danmörk hefur verið að auka hernaðarviðbúnað sinn á Grænlandi, hugsanlega vegna yfirlýsinga forseta Bandaríkjanna, forysturíkis NATO. Danmörk hefur eins og mörg NATO ríki verið að hervæðast vegna Úkraínustríðsins með vopnakaupum frá Bandaríkjunum, t.d. F35 orrustuþotum. Danmörk er því háð Bandaríkjunum með viðhald, þjónustu og varahluti fyrir þessar vélar og önnur hergögn sem Danir kaupa af Bandaríkjunum.

Afleiðingar Úkraínustríðsins taka sífellt á sig nýjar og óvæntar myndir. Staða Danmerkur gagnvart Bandaríkjunum er ekki sterk. Danmörk gat gætt Grænlands á friðartímum en nú er komin stórveldasamkeppni á norðurslóðir þar sem smáríki má sín lítils.“

Mikilvægi norðurslóða

„Mikilvægi norðurslóða fer vaxandi vegna loftslagsbreytinga. Ekki bara vegna auðlinda heldur siglingaleiða sem eru að opnast, þ.e. Northwest Passage eftir strandlengju Bandaríkjanna (Alaska), Kanada og Grænlands, og svo Northeast Passage/Northern Sea Route eftir strandlengju Rússlands.

Fyrir utan auðlindir og siglingaleiðir blandast stórveldasamkeppni inn í þetta mál. Í Norðurskautsráðinu eru átta ríki: Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Öll ríkin eru nú NATO ríki nema Rússland. Þetta er ein ástæða þess að samvinna Rússlands og Kína er orðin náin á þessu svæði og Kína skilgreinir sig nú sem „Near-Arctic State“. Það má ímynda sér að best væri fyrir Rússland að sitja sem mest eitt að auðlindum sínum á þessum slóðum en þegar þarna eru sjö NATO ríki kemur varla á óvart að Rússland leiti bandamanna til að styrkja stöðu sína á þessu svæði.

Kína, sem er útflutningsdrifið hagkerfi, þarf aðgang að öruggum siglingleiðum og hefur augljósa hagsmuni af því að vinna með Rússlandi á norðurslóðum. Vegna Úkraínustríðsins hafa utanríkisviðskipti milli Rússlands og Kína vaxið mikið og Kína þarf á auðlindum Rússlands að halda, og siglingaleiðum, Northeast Passage/Northern Sea Route. Samvinna Kína og Rússlands hefur styrkt stöðu Kína mikið í stórveldasamkeppninni við Bandaríkin og nú vill Donald Trump semja við Rússland um Úkraínustríðið og bæta samskiptin við Rússland.“

Hinn sterki ræður

„Á tímum Biden stjórnarinnar töluðu bandarísk stjórnvöld og önnur NATO ríki mikið um mikilvægi þess að öll lönd virtu alþjóðalög og svokallaða „rules based international order“ en nú má spyrja hvort slík sjónarmið séu fokin út í veður og vind? Er staðan nú sú að sá sterki ræður, sá veiki tapar, að alþjóðalög og alþjóðastofnanir skipti ekki lengur máli?

Mikil óvissa er framundan og átakalínur að færast á norðurslóðir og nær Íslandi. Svo er spurning hvert NATO ríki eins og Danmörk leitar ef Donald Trump setur mikinn þrýsting á landið eða beitir valdi. Hvað gæti ESB yfirleitt gert nema að mótmæla? Flest aðildarríkin eru undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna.

Nýlegar yfirlýsingar Donalds Trump gætu svo bent til þess að „America First policy“ feli í sér vilja til auka yfirráð þessa öflugasta stórveldis heimsins út fyrir landamæri sín í nafni frelsis, viðskipta- og þjóðaröryggishagsmuna. Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini.

Taki Bandaríkin Grænland með valdi hvað verður þá um 5. grein NATO? Sé ráðist á eitt aðildarríki NATO ríki ber hinum að bregðast við. Hvernig munu önnur NATO ríki bregðast við? Hvað verður þá um NATO?“

Kort frá 1947 sem sýnir hernaðarlegan ávinning fyrir Bandaríkin að eignast Grænland. Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna bauðst til að kaupa Grænland frá Danmörku árið 1946 fyrir 100 milljónir dollara í gulli. Áhugi Bandaríkjanna á þessum kaupum nær til 1867, en það ár keyptu Bandaríkin Alaska af Rússlandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Guðrún segir Guðmund hafa rangt fyrir sér: „Mótefni veldur ekki inflúensu eða öðrum sýkingum“

Guðrún segir Guðmund hafa rangt fyrir sér: „Mótefni veldur ekki inflúensu eða öðrum sýkingum“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum
Fréttir
Í gær

93 ára gamall maður handtekinn fyrir morð á eiginkonu sinni í Kaliforníu – Beið á bílastæði eftir lögreglunni

93 ára gamall maður handtekinn fyrir morð á eiginkonu sinni í Kaliforníu – Beið á bílastæði eftir lögreglunni
Fréttir
Í gær

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi
Fréttir
Í gær

Guffi bílasali í athyglisverðu viðtali – Hjólar í andstæðinga einkabílsins

Guffi bílasali í athyglisverðu viðtali – Hjólar í andstæðinga einkabílsins
Fréttir
Í gær

Margir minnast Godds – „Góða ferð og takk fyrir allt“

Margir minnast Godds – „Góða ferð og takk fyrir allt“
Fréttir
Í gær

Lögregla: „Slíkir gjörningar sjást langar leiðir“

Lögregla: „Slíkir gjörningar sjást langar leiðir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kvartaði yfir bólusetningum ungbarna gegn veiru sem getur valdið alvarlegum sýkingum

Kvartaði yfir bólusetningum ungbarna gegn veiru sem getur valdið alvarlegum sýkingum