fbpx
Þriðjudagur 06.janúar 2026
Fréttir

Margir minnast Godds – „Góða ferð og takk fyrir allt“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 5. janúar 2026 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Oddur Magnússon, listamaður og prófessor emeritus í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, lést um helgina í bílslysi á Biskupstungnabraut. Guðmundur Oddur, sem var þekktur undir listamannanafninu Goddur, var einn helsti sérfræðingur Íslendinga á sviði myndmáls og hönnunar og var iðulega kallaður til þegar fræða þurfti almenning nánar um þessi sérsvið hans.

Sjá einnig: Goddur lést á Biskupstungnabraut

Goddur var sjötugur þegar hann lést og hafði á löngum ferli sínum snert líf fjölda fólks sem nú minnist hans með harmi og þakkar fyrir framlag hans til íslenskrar menningar. Ástríða hans fyrir listinni hafi verið einstök og lifir áfram bæði í verkum hans sem og þeirra fjölmörgu sem hann leiðbeindi.

Leikstjórinn Viðar Eggertsson kynntist Godd fyrst árið 1993 og minnist hans sem listamanns sem fannst fátt skemmtilegra en að storka viðteknum gildum. Goddur hafi verið svo leikinn á að nota tæknina við listsköpun sína að það minnti helst á galdra. „Mörg kvöldin sat ég með honum og dáðist að honum galdra fram allskyns furður við sköpunina. Fyrir mér var hann galdramaður – enda leit hann seinna æ meir út sem slíkur. Takk fyrir allt, meistari og galdramaður, Guðmundur Oddur Magnússon.“

Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson minnist þess er hann og Goddur unnu saman að síðustu prentuðu útgáfu símaskrárinnar og birtir mynd af þeim saman.

Blaðamaðurinn Björn Þorláksson segist sleginn og minnist þess hvernig Goddur stappaði í hann stálinu eftir að Björn hafði gert allt vitlaust á Akureyri með fréttaflutningi.

„Eins og hann fyndi að ég væri að kikna. Hafði samband, útskýrði hugarheim Akureyringa, hitti mig, hrósaði, peppaði upp, ræddi fórnir dagsins í dag í þágu framtíðarinnar, að ógleymdri allri umræðunni sem við áttum um listir og menningu. Það munar um menn eins og Godd á svo mörgum sviðum, mörg verk stórmenna eru ósýnileg. Takk fyrir allt Goddur minn, góða ferð og takk fyrir allt. Aðstandendum og vinum sendi ég hlýjar samúðarkveðjur.“

„Elsku Goddur. Skapandi, hæfileikaríkur, fróður, glettir, hlýr og skemmtilegur. Það voru forréttindi að kynnast honum og fá að vinna með honum í Djöflaeyjunni. Ég votta aðstandendum og vinum innilega samúð mína. Goddur gaf þjóðinni mikið, með kennslu, rannsóknum, miðlun og eigin verkum. Megi minning hans lifa,“ skrifar rithöfundurinn Sigríður Pétursdóttir.

„Frumkvöðull, fræðimaður og fagurkeri er fallinn frá. Goddur var gæddur snilli sem hann var gjöfull á – ómetanlegur að leita til, alltaf djúpur og alltaf fagmaður. Þakka fyrir allar stundir með honum bæði í vinnu og í hundahittingunum. Samhryggist innilega öllu hans fólki – því hann á það víða, áhrifa hans gætir víða. Megi minning hans lifa sem lengst,“ skrifar Vigdís Másdóttir kynningar- og markaðsstjóri Mekó.

Brynja Pétursdóttir, einn frægasti danskennari landsins, útskrifaðist úr grafískri hönnun árið 2008 undir leiðsögn Godds og segir að hann hafi blásið í nemendur sína anda og eldmóð. „Sumir hafa áhrif langt inn í framtíðina og opna dyr í hausnum á manni sem hefðu annars ekkert opnast. Þetta er mikill missir og hann skilur eftir sig stórt tómarúm, en mikið er ég þakklát fyrir að hafa kynnst honum.“

Lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir segir að Goddur hafi verið einn af „töfraöndum“ Íslands sem var alltaf tilbúinn að leggja hönd á plóg í baráttu Katrínar og fleiri fyrir nýrri stjórnarskrá. Samfélagið á Íslandi sé fátækara eftir þennan missi. „Hugsjónamaður með svo tæran prakkaraglampa í auga að hann mátti spotta úr órafjarlægð.“

Heimilisiðnarfélag Íslands bendir á að það hafi verið Goddur sem árið 2007 lagði til að gefin yrði út sjónabók með munstrum sem varðveist hafa á Þjóðminjasafninu, bók sem gæti nýst skapandi fólki sem vildi nota íslenskan myndheim í hönnun sína og koma þessum þjóðararfi okkar á framfæri. Bókin varð að veruleika og kom út árið 2009.

„Ástríða Godds fyrir íslenskum myndheim og mynstrum gaf okkur Sjónabókina sem er í dag endalaus uppspretta nýrra hugmynda sem byggja á gömlum grunni. Við munum minnast hans með hlýju og þakklæti í hvert sinn sem við flettum þessu merka riti.“

Hönnuðurinn Sigurður Oddsson segist bókstaflega eiga Goddi feril sinn að þakka. Goddur hafi séð eitthvað í Sigurði sem aðrir sáu ekki og hleypti honum inn í Listaháskólann, jafnvel þó að mappan sem fylgdi umsókninni hafi ekki verið sú besta. Goddur hafi svo verið frábær kennari sem kenndi nemendum sínum að horfa á lífið um umhverfið með nýjum augum.

„Verðmætasta var líklegast að hann kenndi manni að horfa. Að taka eftir og tengja allt sjónrænt í umhverfinu og setja í stærra sögulegt samhengi. Samhengið er síðan okkar ábyrgð að hafa áhrif á og móta áfram í þeirri mynd sem við viljum.

Goddur blörraði línurnar milli hönnunar og listar meira en gengur og gerist, sem hafði það að verkum að margir íslenskir hönnuðir hafa fundið kjark og leyfi til að stíga fram sem listamenn. Þetta er eitt af sérkennum okkar litlu senu hér sem hann á heiðurinn af skuldlaust með fyrirmynd og hvatningu. “

Karl Örvarsson skemmtikraftur og hönnuður minnist lærimeistara síns af hlýju. „Þær voru sláandi, sorglegar og í raun óraunverulegar fréttirnar sem bombarteruðu mann þennan daginn og mig setur hljóðan. Guðmundur Oddur (Goddur) látinn eftir bílslys. Þessi lærimeistari minn úr grafísku hönnuninni og vil ég segja vinur og verndari. Maður sem snerti líf mitt og svo margra með sinni visku, þekkingu og eldmóð á ýmsum sviðum. Það er með hryggð og djúpri lotningu sem ég rita þetta og votta aðstandendum hans dýpstu samúðarkveðjur.“

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson segir að örsamfélög eins og Ísland standi og falli með fólki á borð við Godd. „Þvílíkur risi sem Goddur var fyrir íslenskt menningarlíf. Örsamfélög eins og okkar standa og falla með fólki sem brennur fyrir hlutum og hugðarefnum. Ástríðan er heilagt afl.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

„Grænland ætti augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum“

„Grænland ætti augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Reykjanesbær tæmdi geymslur á Ásbrú og neitar að greiða bætur

Reykjanesbær tæmdi geymslur á Ásbrú og neitar að greiða bætur
Fréttir
Í gær

Finnar birta dramatískt myndband af töku skemmdarverkaskips

Finnar birta dramatískt myndband af töku skemmdarverkaskips
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýtt met í Sádi Arabíu – Tóku að meðaltali einn af lífi á hverjum degi árið 2025

Nýtt met í Sádi Arabíu – Tóku að meðaltali einn af lífi á hverjum degi árið 2025