fbpx
Miðvikudagur 07.janúar 2026
Fréttir

„Bíóið sem mótaði kynslóðir – kveðjustund Álfabakka“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 5. janúar 2026 17:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greint var frá því í fréttum í byrjun nóvember að fjarskiptafyrirtækið Nova hefði gengið frá leigusamningi á Álfabakka 8 og myndi flytja þangað fyrri hluta árs 2027.

Húsnæðið ætti að vera Íslendingum að góðu kunnugt, stærsti skemmtistaður landsins Broadway var þar um tíma og síðar Bíóhöllin, sem breytti svo um nafn og varð Sambíóin Álfabakka.

Sjá einnig: Nova flytur á Broadway

Alfreð Ásberg, framkvæmdastjóri Sambíóanna, kveður Álfabakka, bíóið sem mótaði kynslóðir í færslu sinni á Facebook.

„Lokun Sambíóanna Álfabakka markar tímamót í íslenskri kvikmyndasögu. Þetta er ekki bara lokun á bíóhúsi, heldur kveðjustund við stað sem hefur verið órjúfanlegur hluti af menningar, og minningalífi þjóðarinnar í áratugi.“

Alfreð rifjar upp sögu bíósins, sem opnaði fyrst sem Bíóhöllin 2. mars 1982 og vakti strax gríðarlega athygli. „Á þeim tíma ríkti stöðnun á bíómarkaðnum; samkeppnin var lítil og nýsköpun af skornum skammti. Með komu Álfabakka breyttist landslagið. Bíóið kom sterkt inn, bæði hvað varðar umfang, hugmyndafræði og upplifun, og lyfti íslenskri bíómenningu upp á nýtt stig. Engin önnur opnun kvikmyndahúss hefur haft jafn mikil áhrif og þegar Álfabakki opnaði, og þrátt fyrir ýmsar tilraunir síðar hefur engum tekist að endurtaka þann kraft.

Árið 1991 var nafninu breytt í Sambíóin við Álfabakka og segir Alfreð nýtt nafn fjótlega hafa orðið samofið staðnum sjálfum.

„Fyrir marga var Álfabakki einfaldlega bíóið, staðurinn þar sem fyrstu bíóminningarnar urðu til, þar sem vinir hittust, pör fóru á stefnumót og starfsfólk skapaði einstakt andrúmsloft sem gestir fundu strax fyrir.“

Alfreð segist hafa verið spurður hvort það sé ekki erfitt að loka Álfabakka, og hann geti ekki neitað því.

„Söknuðurinn er mikill og eftirsjá óumflýjanleg. Margir eiga þar dýrmætar minningar, bæði starfsfólk og bíógestir. Sambíóin Álfabakka var sögulegt hús, ekki aðeins vegna þess hve byltingarkennt það var í upphafi, heldur einnig vegna þess hve lengi það hélt velli.

Það sem gerir sögu Álfabakka enn merkilegri er að bíóið hélt áfram að standa sterkt í samkeppni við ný og glæsileg kvikmyndahús, þrátt fyrir að hafa ekki fengið sambærilega endurnýjun. Álfabakki studdist ekki eingöngu við nýjustu tæknina, heldur við sterka stöðu, traustan gestahóp og þá sérstöku stemningu sem aðeins áratuga saga getur skapað. Það eitt og sér segir mikið um gildi staðarins.“

Alfreð nefnir að lokum að til að heiðra sögu hússins og minnast þeirra fjölmörgu augnablika sem þar hafa orðið til, verða sýndar klassískar og eftirminnilegar kvikmyndir nú í janúar.

„Þar munu gleði og söknuður mætast, þegar eldri myndir lifna við á hvíta tjaldinu í sögulegu umhverfi Álfabakka, bíóhúsi sem hefur í raun prjónað saman kynslóðir kvikmyndaáhugafólks allt frá árinu 1982.

Þótt ljósin slokkni að lokum lifir sagan áfram. Sambíóin Álfabakka verða ávallt stór hluti af íslenskri bíómenningu, og af minningum þeirra sem þar upplifðu töfra kvikmyndanna.“

Margir minnast góðra stunda í Bíóhöllinni og síðar Sambíóunum Álfabakka

Ljóst er að margir minnast Álfabakka með hlýju og eiga þaðan góðar minningar, þegar þetta er skrifað hafa yfir 100 athugasemdir verið skrifaðar við færslu Alfreðs þar sem fólk rifjar upp ferðir í bíóið og hvaða myndir það sá þar, jafnvel fyrstu myndina sem það sá þar.

„Þær eru margar klukkustundirnar sem maður eyddi í þessu húsi og fjöldi myndanna sem maður sá og magn poppsins sem maður innbyrgði verður ekki hægt að festa tölu á. Húsið hefur fylgt manni frá 16 ára aldri,“ segir Ívar Guðmundsson dagskrárstjóri Bylgjunnar.

„Takk fyrir mig – ég gerði mér nokkrar ferðir frá Akranesi til að fara þarna í bíó,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson konungur Rokklands á Rás 2.

Anna Rún Frímannsdóttir, blaðamaður menningardeildar Morgunblaðsins og rithöfundur, á góðar minningar sem starfsmaður í bíóinu: „Þvílík tímamót sem kalla fram dásamlegar minningar. Það voru sannkölluð foréttindi að fá að vinna í Álfabakkanum um kvöld og helgar öll menntaskólaárin. Það var einfaldlega alltaf gaman að mæta í vinnuna og hitta allt frábæra samstarfsfólkið, standa vaktina í sjoppunni, vísa til sætis og hlaupa í alls kyns störf sem þurfti að inna af hendi. Kvöld eftir kvöld var uppselt á flestar sýningar enda mikið kapp lagt á að sýna stærstu og vinsælustu myndirnar. Takk fyrir mig Alfreð Ásberg og árin mín fjögur í Álfabakkanum. Man enn þegar ég mætti á fyrstu vaktina mína 1992, hæstánægð að fá að klæðast glæsilegum búningi Sambíóanna og síðar meir að safna alls kyns skemmtilegum kvikmyndatengdum nælum í vestið.“

„Mikil tímamót sem eru sannarlega tregablandin. En kvikmyndirnar lifa áfram í breyttum veruleika og allir sem ég tala við, nefna að besta bíóupplifunin nú um stundir sé að fara í Ásberg í Kringlunni. Þannig er sögunni viðhaldið!“ segir Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður formanns Miðflokksins.

„Mikil eftirsjá af þessu sögulega kvikmyndahúsi. Margar af bestu minningum æskunnar tengjast því. Takk fyrir og gangi ykkur vel í framhaldinu,“ segir Hannes Þór Halldórsson, kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri og fyrrum knattspyrnumarkvörður.

Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona: „Fullt af frábærum minningum þaðan-takk fyrir mig!“

„Þær eru ófáar góðu stundirnar sem maður hefur átt þarna!“ segir Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR og fyrrum félagsmálaráðherra.

„Frábærar minningar um þetta skemmtilega bíó, mín fyrsta minning var að sjá A view to a kill með mömmu. Síðan man ég svo vel að þegar bíóið var tekið í gegn og blikkandi ljósakassarnir utan um posterana og einkennisbúningarnir komu, það var svona WOW augnablik. En gaman að sjá þessa mynd af bíóinu 1982, þarna var verið að byggja hús sem hefði auðveldlega getað verið kassi líkt og græna ferlíkið sem nýlega var byggt í nágranni en í staðinn var byggt hús með detailum og skemmtilegum arkitektúr,“ segir Samúel Bjarki Pétursson, einn eigenda Skot Productions.

„Það verður svo sannarlega söknuður af þessu merka húsi. Innileg kveðja til ykkar hjá Sambíóunum,“ segir Ólafur Darri Ólafsson leikari.

„Margar góðar minningar þaðan, takk fyrir mig,“ segir Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Starf Edu strax í hættu
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Helgi Hrafn orðlaus yfir grein lögmannsins um Ísland og Trump – „Bara hingað og ekki lengra. Þetta er galið“

Helgi Hrafn orðlaus yfir grein lögmannsins um Ísland og Trump – „Bara hingað og ekki lengra. Þetta er galið“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Sigríður Margrét ráðin forstjóri Bláa lónsins

Sigríður Margrét ráðin forstjóri Bláa lónsins
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína