

Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir meðal annars miðborginni, var erlendur karlmaður handtekinn grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna sem og ólöglega dvöl í landinu. Hann var vistaður í fangaklefa.
Þá var maður kærður fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. „Reyndi að skipta um sæti við farþega en slíkir gjörningar sjást langar leiðir og skilaði því ekki tilsettum árangri,“ segir í skeyti lögreglu nú í morgunsárið.
Í umdæmi lögreglustöðvar 3 var maður handtekinn grunaður um líkamsárás og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Hann reyndi að hlaupa frá lögreglumönnum en hafði ekki erindi sem erfiði og var vistaður í fangaklefa.