Þetta segir Guðmundur Ingi í pistli á vef Vísis þar sem hann vísar í nýjustu tölur dómsmálaráðuneytisins. Þær sýna að 57% allra fanga á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar.
Bendir hann á að þetta hlutfall hafi tvöfaldast á fimm árum og sé nú orðið eitt það hæsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Þá sé enn alvarlegra að um 75% þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi eru útlendingar.
„Við hjá Afstöðu, höfum ítrekað bent á að þessi þróun er ekki tilviljun heldur afleiðing mismununar innan íslenska dómskerfisins. Það er ekki svo að útlendingar fremji hlutfallslega fleiri alvarleg brot heldur neitar íslenskt réttarkerfi þeim um aðgang að samfélagsþjónustu. Þar af leiðandi er stór hópur fanga, sem ekki er talinn hættulegur, vistaður í fangelsum í stað þess að fá að taka út dóm sinn með öðrum hætti,“ segir Guðmundur Ingi í pistli sínum.
Hann segir að þetta eigi sérstaklega við um konur sem handteknar eru fyrir innflutning vímuefna eða minni háttar hlutverk í skipulagðri brotastarfsemi. Segir hann að margar þeirra séu raun fórnarlömb mansals og ættu að njóta verndar og endurhæfingar í opnu úrræði. Þess í stað sitji þær í gæsluvarðhaldi eða fangelsi.
„Íslenskt samfélag verður að horfast í augu við að þessi mismunun brýtur gegn grundvallarreglunni um jafnræði gagnvart lögum. Þegar tveir einstaklingar fremja sambærilegt brot en annar tekur út dóm sinn með samfélagsþjónustu á meðan hinn er sendur í fangelsi vegna þjóðernis er um skýra mismunun að ræða. Þetta fyrirkomulag er jafnframt fjárhagslega óhagkvæmt fyrir ríkissjóð vegna þess að kostnaðurinn við að vista fanga í lokuðu fangelsi er margfalt hærri en að nýta mannúðlegri úrræði,“ segir hann.
Guðmundur Ingi segir að lausnin sé einföld og stöðva þurfi mismununina.
„Tryggjum að allir, óháð þjóðerni, hafi jafnt aðgengi að samfélagsþjónustu. Með því léttum við á fangelsiskerfinu, spörum fjármuni og sýnum að réttarríki Íslands byggist á jafnræði og mannréttindum. Réttarríki sem mismunar eftir þjóðerni er ekki raunverulegt réttarríki. Við skorum á dómsmálaráðherra að tryggja jafnræði allra gagnvart lögunum.“