fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Fréttir

Flugstjóri telur skjöl varpa nýju ljósi á eitt mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar – „Ótrúleg tilviljun“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 9. september 2025 15:00

Guðbrandur hefur rannsakað Glitfaxamálið í bak og fyrir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi flugstjóri sem rannsakað hefur Glitfaxamálið segir vitnisburð úr lögregluskýrslu leysa ráðgátuna um örlög vélarinnar. Telur hann að hægt sé að geta sér til um hvar flugvélin hrapaði í sjóinn.

Glitfaxi TF-ISG var Dakota vél Flugfélags Íslands sem fórst þann 31. janúar árið 1951 þegar hún var á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Þrátt fyrir mikla leit fannst aðeins brak úr vélinni úti fyrir Vatnsleysuströnd en flak vélarinnar hefur aldrei fundist.

Glitfaxaslysið er eitt mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar en um borð voru sautján farþegar, tveir flugmenn og flugfreyja. Á meðal látinna var drengur á fyrsta ári en flestir farþegarnir voru frá Vestmannaeyjum. Í Fossvogskirkjugarði stendur minnismerki eftir Einar Jónsson um hið mannskæða slys.

Ekkert skyggni

Guðbrandur Jónsson, fyrrverandi flugstjóri, skrifar grein um málið í Morgunblaðið í dag en hann hefur rannsakað þetta slys í þaula. Telur hann hægt að sjá það af gögnum málsins hvað hafi komið fyrir og hvar vélin hafi hrapað í sjóinn.

„Vélin flaug blindflug til Reykjavíkur, flugtími 25 mínútur. Flugvélin átti að tilkynna sig yfir fjölstefnuvitanum RK, þá á Álftanesi norðanverðu, í 500 feta hæð eða sjónflugi, það gerðist en ekki sást til jarðar,“ segir Guðbrandur í greininni. „Því næst átti flugvélin að klifra í 4.000 fet í norðvestur og gera annað aðflug. Þetta verður það síðasta sem heyrist í flugvélinni.“

Í rannsóknum sínum á málinu hefur Guðbrandur skoðað þær upplýsingar sem flugráð sendi samgönguráðherra og geymdar eru á Þjóðskjalasafninu. Kemur fram að þann 14. mars árið 1951 hafi verið settur Lögregluréttur Reykjavíkur á skrifstofu sakadómara, haldinn af fulltrúa hans Loga Einarssyni, það er réttarrannsókn vegna hvarfs Glitfaxa.

Veðurfræðingur og flugumferðarstjóri deildu

Í málinu voru lögð fram ýmis skjöl, þar á meðal skjal sem sýndi að aðstoðarflugmaðurinn hafði ekki tegundaréttindi til að fljúga vél af gerðinni DC-3 eins og Glitfaxi var. En einnig skjöl sem Guðbrandur telur vera örlagavald að slysinu.

„Það kemur upp deila á milli veðurfræðings og starfsmanna flugumferðarstjórnar í flugturni en þar voru tveir menn á vakt, RK turn og RK aðflug,“ segir Guðbrandur. „Deiluefnið var um að loka flugvellinum vegna hættu frá bólstraskýjum að kröfu veðurfræðings því Keflavíkurflugvöllur var að lokast og því stutt í lokun Reykjavíkurflugvallar. Flugumferðarstjóri taldi sig geta „kjaftað flugvélina niður“, þetta var deiluefnið.“

Heyrði í vélinni

Þá segir hann eitt skjalið, eða vitnisburð, gefa vísbendingu um hvar Glitfaxið hrapaði í sjóinn. Það er vitnisburður Oddgeirs Karlssonar, loftskeytamanns á togaranum Júlí, sem hafði áður verið loftskeytamaður á Glitfaxa.

Daginn sem slysið gerðist var Júlí að sigla til Hafnarfjarðar eftir veiðar. Radarinn var í gangi þar sem skyggni var ekkert. Þegar togarinn var um hálfa mílu vestan við Valhúsabauju heyrði Oddgeir í flugvél sem flogið var yfir skipið í átt til Reykjavíkur. Þetta var um korter yfir fimm, síðdegis.

„Telur vitnið flugvélinni ekki hafa verið flogið hátt, en rétt þegar hún hafði farið yfir skipið virtist því sem meira afl væri notað á hreyfla hennar, eins og verið væri að hækka flugið,“ segir Guðbrandur.

Ótrúleg tilviljun

Í öðru skjali komi fram að flugvélin hafi tilkynnt sig í 700 feta hæð í aðflugslínu til Reykjavíkur, 17:16. Segir Guðbrandur ótrúlega tilviljun hafa ráðið því að hægt sé að tengja flugvélina við togarann í þessu máli. En þá hafi komið fram þeir þættir sem veðurfræðingurinn hafi óttast mest, það er návígið við bólstraskýin þar sem andrúmsloftið er rafmagnað og mikið upp-og niðurstreymi.

„Ég hef sjálfur lent í fallvindi frá bólstraskýi, því grimmasta eða „cummulus nimbus.“ Þessi bólstur yfir Álftanesi var litla útgáfan eða cummulus/bólstraský, oft mörg saman í þyrpingu,“ segir Guðbrandur.

Of seint

Glitfaxi komi inn á aðflugslínu í löngu aðflugi í lækkun niður að 500 fetum úr 4000. Í þessari lækkun dynur höggvindur á vélinni, yfir 1500 fet á mínútu.

„Flugvélin er í 700 fetum yfir skipinu þegar ósköpin dynja yfir og skellur vélin í sjóinn á 35 sekúndum og er þar ca. 1.200 metra frá togaranum í norðaustur. Flugvélin ferst við hliðina á togaranum,“ segir Guðbrandur. „Þegar vitnið heyrir vélaraflið aukið þá um leið áttar flugstjóri sig á að vélin var í niðurstreymi frá bólstrinum. Hann gefur flugvélinni fullt vélarafl en of seint.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Í gær

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú