Þingfest var í morgun við Héraðsdóm Reykjaness mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað gegn tveimur erlendum ríkisborgurum fyrir stórfelldan innflutning á kókaíni.
Mennirnir eru sakaðir um að hafa í sameiningu staðið að innflutningi á rétt rúmlega 12 kg af kókaíni með styrkleika 82-88%, sem samsvarar um 10 kg af hreinu kókaíni.
Þeir fluttu efnin í ferðatöskum sínum er þeir komu hingað til lands með farþegaflugi föstudaginn 23. maí síðastiðinn. Skiptu þeir efnunum til helminga, þannig að hvor um sig var með 6 kg í sinni tösku.
Miðað við dómafordæmi gætu mennirnir átt von á allt að 8 ára fangelsi fyrir brotið.