fbpx
Þriðjudagur 30.september 2025
Fréttir

Gufunesmálið: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 30. september 2025 13:00

Stefán Blackburn við upphaf aðalmeðferðar. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómur var kveðinn upp í Gufunesmálinu svokallaða síðastliðinn föstudag. Þeir Stefán Blackburn, Lúkas Geir Ingvarsson og Matthías Björn Erlingsson voru þar allir sakfelldir fyrir manndráp, frelsissviptingu og rán, í tengslum við andlát Hjörleifs Hauks Guðmundssonar, 65 ára manns frá Þorlákshöfn. Stefán var að auki sakfelldur fyrir tilraun til fjárkúgunar.

Hlutu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsi og Matthías 14 ára fangelsi. Fjórði sakborningurinn í málinu var sakfelldur fyrir peningaþvætti en refsingu yfir honum frestað, og ung kona var sýknuð af ákæru um hlutdeild í frelsissviptingu og ráni, en hún lokkaði Hjörleif með símtölum út í bíl til þeirra Stefáns og Lúkasar, undir því yfirskini að hún væri að fara að hitta hann.

Sjá einnig: Maður sem hafði samband við lögreglu og átti þátt í að leysa málið var sakfelldur

Matthías neitaði sök í málinu en þeir Stefán og Lúkas játuðu sök varðandi frelsissviptingu og rán en neituðu sök hvað varðar manndráp. Í málsvörn þeirra voru færðar fram þær röksemdir um að það hafi ekki verið ásetningur þeirra að bana Hjörleifi heitnum heldur að kúga út úr honum fé. En hegningarlögin tilgreina mismunandi ásetningsstig og dómari segir það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi ekki dulist að afleiðingar af brotum þeirra gætu orðið þær að Hjörleifur léti lífið. Þeir hafi hins vegar látið sér þær afleiðingar í léttu rúmi liggja. Voru þeir því sakfelldir fyrir manndráp, allir þrír.

„Þá er óhjákvæmilegt að líta til þess hrottafengna ofbeldis og meðferðar sem brotaþoli mátti sæta, sem helst verður líkt við pyntingar,“ segir í dómnum.

Sjá einnig: Hvers vegna var konan sýknuð?

Hver er hæfileg refsing fyrir þessi brot samkvæmt íslenskum lögum? Í 34. gr. almennra hegningarlaga segir að dæma megi menn í fangelsi ævilangt eða um tiltekinn tíma, ekki skemur en 30 daga og ekki lengur en 16 ár.

Almennt viðmið er að menn séu ekki dæmdir í lengra en 16 ára fangelsi. Hins vegar segir í 79. gr. að lög heimili aukna refsingu og eru þá takmörkin sem sett eru í 34. gr. ekki því til fyrirstöðu að dæma menn í allt að 20 ára fangelsi.

Hvað varðar Stefán Blackburn var tekið tillit til þess að hann hefði játað brot sitt að hluta og að hann hefði ekki verið upphafsmaður að þeirri atburðarás sem leiddi til andlát Hjörleifs. Hann hafi hins vegar tekið að sér stjórnina eftir því sem leið á atburðarásina.

Við ákvörðun refsingar var hins vegar einnig horft til þess að Stefán hefur áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Þótti því dómara hæfilegt að dæma hann í 17 ára fangelsi.

Lúkas upphafsmaður

Við ákvörðun refsingar yfir Lúkasi Geir Ingvarssyni var litið til þess að hann var upphafsmaður og skipuleggjandi þeirrar atburðarásar sem leiddi til þess að Hjörleifur var sviptur lífi. Hins vegar er litið til þess að hann gekkst við brotum sínum að hluta. Á hinn bóginn er það til refsiþyngingar að hann hefur áður gerst sekur um ofbeldisbrot og ekki síður það að með þessu broti rauf hann skilorð dóms í öðru ofbeldisbroti sem hann hafði verið dæmdur fyrir.

Þótti hæfileg refsing fyrir Lúkas vera 17 ára fangelsi.

Matthías ekki með brotaferil

Matthías Björn Erlingsson neitaði sök í málinu og í málsvörn sinni vísaði hann meðal annars til þess að í ákæru er ekki að finna neinar lýsingar á ofbeldi hans í garð Hjörleifs. Í ákærunni eru engu að síður allir þrír sakaðir um að hafa svipt Hjörleif lífi. Dómari telur hins vegar hafið yfir skynsamlegan vafa að Matthías hafi einnig misþyrmt Hjörleifi.

Við ákvörðun refsingar yfir Matthíasi var horft til þess að hann var ekki upphafsmaður og skipuleggjandi að atburðarásinni sem leiddi til dauða Hjörleifs heldur kom inn í atburðarásina eftir að hún var hafin. Einnig er tekið tillit til þess að hann var aðeins 18 ára þegar hann framdi þessi brot og að hann hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot.

Hæfileg refsing yfir Matthíasi þótti því vera 14 ára fangelsi.

Líkur eru til þess að allir sakborningarnir áfrýji dóminum til Landsréttar en ekkert er staðfest í þeim efnum.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða

Stefán Einar kallar Hallgrím Helgason hrotta og segir samvisku Bubba vera beygða og beyglaða
Fréttir
Í gær

Magga Frikka þróar umhverfisvænar umbúðir og hlýtur alþjóðleg verðlaun

Magga Frikka þróar umhverfisvænar umbúðir og hlýtur alþjóðleg verðlaun