Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnastýra Samtakanna 78, þakkar fyrir stuðninginn sem henni hefur verið sýndur eftir Kastljósþáttinn umdeilda þar sem hún mætti Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins. En hann hefur fengið harða gagnrýni eftir þáttinn, bæði fyrir viðhorf sín gagnvart hinsegin fólki og stöðugum frammíköllum og ókurteisi gagnvart Þorbjörgu.
„Ég er enn að jafna mig eftir þetta stórskrítna Kastljós og er svo þakklát fyrir skilaboðin, símtölin og stuðninginn. Ég væri til í að skrifa langan texta, útskýra og leiðrétta, en það verður að fá að bíða betri tíma,“ segir Þorbjörg í færslu á samfélagsmiðlum.
Hún ítrekar hins vegar setningu sem hún sagði í þættinum sjálfum og segir hana það sem mestu máli skiptir. Það er: „Þá erum við alltaf að tala um alvöru fólk með alvöru tilfinningar.“