fbpx
Miðvikudagur 03.september 2025
Fréttir

Hvarf Ólafs Austmann í Búlgaríu – „Hún hélt að hann væri að fara á klósettið en svo kom hann ekki til baka“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 3. september 2025 17:00

Ólafur hefur verið týndur í meira en tvær vikur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enn hefur ekkert spurst til Ólafs Austmann Þorbjörnssonar, 43 ára manns, sem hefur verið týndur í Búlgaríu síðan þriðjudaginn 18. ágúst. Systir Ólafs segir að fjölskyldan óttist mjög um hann, hann sé veikur og eigi erfitt með að vera einn lengi. Það sé mjög óvenjulegt að hann láti ekki vita af sér.

„Hann lætur alltaf heyra í sér,“ segir Ingibjörg Austmann, systir Ólafs, sem hefur nú verið horfinn í rúmar tvær vikur. Greint var frá því í fjölmiðlum á laugardag að Ólafur væri týndur en hvarf hans var tilkynnt til lögreglu þann 21. ágúst.

Brosti og fór

Að sögn Ingibjargar fór Ólafur í ferðalag til Búlgaríu í lok júlí ásamt vinkonu sinni. Heimferðardagur var ekki ákveðinn en Ólafur hugðist þó koma aftur í vikunni sem hann hvarf.

„Hann var með vinkonu sinni úti og hún er með vegabréfið hans. Hann er ekki með neitt á sér,“ segir Ingibjörg. Þess vegna er hún viss um að hann sé enn þá í landinu. En Ólafur sást síðast í höfuðborginni Sófíu, nálægt bensínstöð.

Sjá einnig:

Íslendingur týndur í Búlgaríu

„Þau voru saman í garði nálægt bensínstöð. Hann fór úr skónum og stóð svo upp. Hún spurði hvert hann væri að fara en hann bara brosti og fór,“ segir Ingibjörg. „Hún hélt að hann væri að fara á klósettið en svo kom hann ekki til baka. Hún fór að litast um eftir honum eftir 10 eða 15 mínútur en fann enga slóð eftir hann.“

Þessi vinkona, sem er íslensk, var áfram í Búlgaríu í um viku og hélt áfram að leita að Ólafi en kom á endanum aftur heim til Íslands. Hún sagði bæði fjölskyldunni og lögreglunni hvað hefði gerst.

„Hann hefur ekki verið online síðan á föstudeginum 15. ágúst og engu símasambandi við neinn síðan 18. ágúst,“ segir Ingibjörg. Hann sé hvorki með skilríki né farsímann sinn á sér.

Með taugasjúkdóm

Ingibjörg segir Ólaf ekki eiga sögu um geðrænan vanda en sé líkamlega veikur.

„Hann greindist fyrir stuttu með taugasjúkdóm og var að fá krampaköst. Hann myndi ábyggilega ekki plumma sig mjög lengi einn,“ segir hún. „Við óttumst virkilega um hann. Hann er fullorðinn maður og ber ekkert skylda til að hafa samband en hann gerir það alltaf. Hann á þrjú börn, þar á meðal fullorðna dóttur sem hann heyrir reglulega í.“

Erfið samskipti við lögregluna ytra

Hvarf Ólafs var tilkynnt 21. ágúst til Lögreglunnar á Suðurlandi og tveimur dögum seinna fékk fjölskyldan að vita að málið væri komið til Alþjóðadeildar og að Ólafur hefði verið tilkynntur sem týndur hjá Europol. En erfiðlega hefur gengið að ná tengingu við búlgörsk lögregluyfirvöld og samskipta og tungumálaörðugleikar hafa gert þeim erfitt fyrir.

Ingibjörg segist ekki vita hversu virk leitin er hjá lögreglunni í Búlgaríu. Fjölskyldan viti til dæmis ekki hvort að myndefni úr öryggismyndavélum í kringum þessa tilteknu bensínstöð hafi verið skoðað.

„Það var einhver kona sem taldi sig hafa séð hann mánudeginum eftir hvarfið. Hún hringdi á lögregluna sem kom á staðinn en fann ekkert,“ segir Ingibjörg.

Hjálpsamt fólk

Hins vegar hafi einstaklingar boðið fram aðstoð sína eftir að fjölskyldan tilkynnti hvarfið á samfélagsmiðlum. Meðal annars Íslendingar í Búlgaríu sem komu málinu í búlgarska fjölmiðla. Fyrir þessa aðstoð er fjölskyldan óendanlega þakklát.

Ingibjörg segir að fólk hafi verið mjög hjálpsamt, bæði Íslendingar og heimamenn. Mynd/Facebook

„Við erum sjálf búin að reyna að hafa samband hingað og þangað og það er fólk úti, bæði Íslendingar og heimamenn, sem er búið að vera dásamlegt við að reyna að aðstoða okkur. Fara á stofnanir og litast um eftir honum. En það finnst ekkert,“ segir Ingibjörg að lokum.

Ólafur er um 184 sentimetrar á hæð, með dökkt hár og grannvaxinn. Hann var í gallabuxum og svartri skyrtu þegar hann sást síðast.

Ingibjörg segir að hægt sé að senda henni skilaboð eða heyra beint í lögreglunni. Hægt er að senda henni skilaboð á Facebook eða á ingibjorgaustmann@gmail.com og hafa samband við 112.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Rannsókn lögreglu á meintum níðingi á Múlaborg: „Við erum að skoða ýmislegt“

Rannsókn lögreglu á meintum níðingi á Múlaborg: „Við erum að skoða ýmislegt“
Fréttir
Í gær

Snorri segist ekki bera neina ábyrgð á hatri í garð hinsegin fólks – „Ég væri til í að við myndum bara ræða mín orð“

Snorri segist ekki bera neina ábyrgð á hatri í garð hinsegin fólks – „Ég væri til í að við myndum bara ræða mín orð“