Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir meðal annars miðborginni, var lögregla kölluð til vegna nágrannaerja. Tilkynnt var um einstakling sem var að kasta dóti og drasli yfir á svalir nágranna síns. Að sögn lögreglu var tilkynnanda leiðbeint hvernig hann gæti lagt fram kæru.
Lögregla fékk einnig tilkynningu um einstakling sem var að reyna að fara inn í bíla. Lögregla hafði uppi á viðkomandi og veitti honum tiltal, en manninum hafði á þeim tímapunkti ekki tekist að fara inn í neina bíla.
Þá hafði lögregla í sama umdæmi afskipti af pari sem var í annarlegu ástandi og til vandræða á hóteli. Var þeim vísað út.
Í umdæmi lögreglustöðvar 2 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar og fjárkúgunar. Frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lögreglu en málið er í rannsókn.
Í umdæmi lögreglustöðvar 3 var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í litla matvöruverslun. Viðkomandi var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins.