Ölgerðin afhenti í dag Minningarsjóði Bryndísar Klöru 15 milljónir króna sem söfnuðust með sölu á Kærleiks Kristal. Markmiðið var að safna fyrir Bryndísarhlíð, úrræði fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.
Salan á Kærleiks Kristal var hluti af kærleiksherferð sem Riddarar kærleikans stóðu fyrir til styrktar uppbyggingar Bryndísarhlíðar. Allur ágóði af sölu Kærleiks Kristals runnu í verkefnið og gáfu einnig Bónus, Krónan, Hagkaup, Samkaup og N1 sinn ágóða af sölu vörunnar.
„Kærleiks Kristal fékk frábærar viðtökur sem fóru fram úr okkar björtustu vonum. Það ríkir mikill einhugur um mikilvægi verkefnisins og stuðningur Bónuss, Krónunnar, Hagkaupa og Samkaupa var ómetanlegur í þessari fjársöfnun, sem og allra þeirra fyrirtækja sem komu að átakinu. Við ljúkum verkefninu með afhendingu á veggplatta sem mun fara á vegg Bryndísarhlíðar og við sjáum fyrir okkur að Riddarar kærleikans muni safna fleiri veggplöttum í samstarfi við fleiri fyrirtæki,“ segir Jóhannes Páll Sigurðarson, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni.
„Minningarsjóður Bryndísar Klöru og Riddarar kærleikans vilja þakka öllum þeim fyrirtækjum sem komu að þessu mikilvæga átaki og að sjálfsögðu öllum þeim sem keyptu Kærleiks Kristal. Kærleikurinn sem þessi samstaða sýnir er mikill stuðningur við uppbyggingu griðastaðar fyrir börn og ungmenni. Það er von okkar að Bryndísarhlíð muni hlúa að öryggi barna um ókomin ár,“ segir Guðrún Inga Sívertsen, formaður Minningarsjóðs Bryndísar Klöru.
Riddarar kærleikans er hreyfing fólks sem heiðrar minningu Bryndísar Klöru með því að virkja kærleikann í samfélaginu, minnka ofbeldi og bæta líðan með opnu samtali og raunverulegum aðgerðum, óháð aldri, uppruna eða bakgrunni.
Bryndísarhlíð verður þjónustumiðstöð og geðheilbrigðisúrræði fyrir börn og ungmenni sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Minningarsjóðurinn hefur safnað fyrir húsnæði undir starfsemina síðustu mánuði og ríkissjóður tekur svo að sér rekstur Bryndísarhlíðar til framtíðar.