Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, er áhyggjufullur yfir hallarekstri bæjarins. Reksturinn standi ekki undir afborgunum á lánum og þetta geti ekki gengið til lengdar.
„Árshlutauppgjör fyrri hluta ársins sýnir skelfilegan hallarekstur, tæpar tólfhundruð milljónir í mínus,“ segir Jón Ingi í aðsendri grein á Vísi. „Reksturinn stendur ekki undir afborgunum af lánum sem eru rúmlega tólfhundruð milljónir króna.“
Hafi bæjarstjórar þessa kjörtímabils, Rósa Guðbjartsdóttir úr Sjálfstæðisflokki og Valdimar Víðisson úr Framsóknarflokki, reynt að halda því fram að hallinn stafi af mikilli uppbyggingu. En ársreikningurinn sýni svart á hvítu að vandinn liggi í grunnrekstri bæjarins. Hann hafi verið ósjálfbær um nærri tvo milljarða króna á ári allt kjörtímabilið.
„Þetta ár er engin undantekning sem segir manni það að meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er ófær um að laga til í rekstrinum og gera hann sjálfbærari,“ segir Jón Ingi. „Það þarf engan sérfræðing til að átta sig á því að þessi hallarekstur getur ekki gengið til lengdar. En fyrsta skrefið er að átta sig á vandanum til þess að geta tekið á honum. Það er því miður orðið ljóst að þessi meirihluti hefur engan áhuga á sjálfbærum rekstri sem gefur okkur sterkar vísbendingar um að þau séu fyrir löngu búin að kasta inn handklæðinu þegar kemur að ábyrgri fjármálastjórn, þrátt fyrir veikburða andvörp um hið gagnstæða. Flestum má þó vera ljóst að þau andvörp eru ekki trúverðug og besta falli hjákátleg.“
Minnir Jón Ingi á að gengið sé til sveitarstjórnarkosninga í vor. Einnig minnir hann á að grunnurinn að öllum kosningaloforðum og stefnum um framtíðarsýn mun ávallt hvíla á traustri fjármálastjórn.
„Því miður hefur núverandi meirihluti valið sér þá leið að horfa fram hjá honum. Það mun aldrei ganga upp til lengdar,“ segir hann.
Samkvæmt stöðugleikareglu í opinberum fjármálum mega regluleg útgjöld ekki vaxa umfram 2 prósent á milli ára að raungildi.
„Til að ná utan um óhóflegan hallarekstur og umfram skuldsetningu sveitarfélaga er nauðsynlegt að taka upp slík vinnubrögð. Slíkt kallast ábyrg fjármálastjórn,“ segir Jón Ingi að lokum.