Syndis tilkynnti í dag kaup á IT-Säkerhetsbolaget, einu traustasta netöryggisfyrirtæki Svíþjóðar.
„Syndis og ITSB deila ekki aðeins markmiðum heldur líka hugarfari,“ segir Anton Egilsson, forstjóri Syndis. „Bæði fyrirtækin byggja á djúpri tæknilegri sérþekkingu og traustu samstarfi við viðskiptavini. Með sameiningunni getum við nýtt styrkleika hvors annars og aukið slagkraft okkar á sviðum sem við þekkjum vel. Kaupin styðja einnig mjög vel við okkar vöxt og þá auknu eftirspurn sem hefur verið á okkar þjónustu á Norðurlöndunum.“
Fyrir viðskiptavini beggja fyrirtækja helst allt óbreytt, fyrir utan að aðgengi að sérfræðiþekkingu eykst. Það sem bætist við er sameiginlegt afl tveggja sérhæfðra öryggisfyrirtækja sem sameinast að því að verja rekstur fyrirtækja.
IT‐Säkerhetsbolaget var stofnað árið 2012 og er með höfuðstöðvar í Sundsvall, Svíþjóð. ITSB hefur áralanga reynslu á sviði gagnaöryggis, persónuverndar og tæknilegra lausna sem mæta þörfum bæði einkaaðila og opinberra aðila.
„Með sameiginlegum gildum, breiðara þjónustuframboði og sterkari fótfestu á Norðurlöndum horfum við björtum augum til framtíðar. Vöxtur Syndis síðustu ár hefur verið mikill og styrkt stöðu okkar sem leiðandi aðila í netöryggismálum á Íslandi og víðar. Með sameiningunni tökum við næsta skref í þeirri vegferð. Við þökkum öllum viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir traustið og stuðninginn sem gerir þennan vöxt mögulegan,“ segir Guðjón Ingi Ágústsson, rekstrarstjóri Syndis.