Airpods Pro 3 kosta 28-56% meira á Íslandi en í átta samanburðarlöndum. Verðmunurinn er mun meiri en á nýjum Iphone-símum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Verðlagseftirlits ASÍ á nýútkomnum vörum frá tæknifyrirtækinu Apple.
Skoðað var verð á nýju iPhone-línunni, tveimur hlustrum framleiddum af Apple og nýjum Airpods Pro-heyrnatólum. Verðbilið á milli íslenskra og erlendra söluaðila var minnst á símunum en mest á Airpods Pro-heyrnatólum.
Af þeim erlendu aðilum sem voru skoðaðir var Algiganten í Svíþjóð næst íslensku verðlagi eða um 7% ódýrara að meðaltali. Þar kosta iPhone-símar svo gott sem það sama á Íslandi en hins vegar kosta ný Airpods Pro 2 38% meira á Íslandi en í sænska systurfyrirtæki ELKO.
Verðbilið breikkar svo lítillega þegar komið er til Danmerkur og svo enn meira í Þýskalandi þar sem það er orðið 40%. Í tilkynningu verðlagseftirlitsins segir:
„Þó eru allir evrópsku verðpunktarnir á vörunni svipaðri innbyrðis en gagnvart Íslandi. Bandaríkin, heimaland Apple, skera sig svo úr þar líkt og í verði símanna sjálfra. Þar kosta Airpods Pro 3 ígildi rétt rúmra 30 þúsund króna.
Taka þarf fram að bandarísk verð eru gefin upp án söluskatts, sem er í sumum fylkjum enginn, en getur verið yfir 10%.“