Mannanafnanefnd kynnir enn og aftur ný og spennandi nöfn sem fengist hafa skráð í mannanafnaskrá. Samkvæmt úrskurðum nefndarinnar frá 18. og 12. september mega stúlkur nú heita Seba, Þorbirna, Natasha, Ívalú, Hrafnbjört og Emerentíana. Drengir mega nú heita Samir.
Mannanafn var töluvert jákvæðari í úrskurðum sínum 18. og 12. september heldur en hún var í ágúst. Að þessu sinni fengust öll nöfn samþykkt en í ágúst hafnaði nefndin stúlkunafninu Latína og drengjanafninu Væringi. Hins vegar samþykkti nefndin drengjanöfnin: Dúni, Matheó, Torben, Kaleo, Teodor og Snjóaldur. Einnig stúlknanöfnin: Raggý, Hamína, Emhild, Inganna, Josephine og Anída. Loks kynhlutlausu nöfnin Elri, Silfurregn, Sky og Rökkur.