fbpx
Mánudagur 22.september 2025
Fréttir

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum gagnrýnd fyrir áform um að tengja parasetamól við einhverfu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. september 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðissérfræðingar víða að úr heiminum vara við því að bandarísk stjórnvöld hyggist tengja notkun parasetamóls á meðgöngu við aukna hættu á einhverfu hjá börnum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á sunnudag að „svarið“ við einhverfu hefði fundist og boðaði sérstaka yfirlýsingu á næstunni. Samkvæmt frétt BBC er gert ráð fyrir að embættismenn í ríkisstjórn hans muni halda því fram að verkjalyfið Tylenol, sem inniheldur parasetamól, geti tengst einhverfu hjá börnum ef mæður hafa tekið það á meðgöngu.

Parasetamól, einnig þekkt sem acetaminophen, er eitt algengasta verkjalyf í heimi og hefur lengi verið notað af þunguðum konum til að lina verki, höfuðverk og hækkaðan hita. BBC greinir frá því að bandarísk heilbrigðisyfirvöld muni nú einungis ráðleggja notkun lyfsins til að lækka háan hita.

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt möguleg tengsl milli notkunar parasetamóls og aukinnar tíðni einhverfu eða ADHD, en niðurstöðurnar hafa verið misvísandi og ekki sannað orsakasamhengi.
Sérfræðingar vara nú við því að fullyrðingar Trumps geti verið bæði hættulegar og villandi. Þeir segja slíkt tal geta skapað ótta meðal þungaðra kvenna og aukið fordóma gagnvart fjölskyldum barna á einhverfurófi.

„Það eru engar sannfærandi vísbendingar um orsakatengsl milli parasetamóls og einhverfu,“ segir Monique Botha, dósent í félags- og þroskasálfræði við Durham-háskóla. Hún bendir á að verkjameðferð fyrir þungaðar konur sé takmörkuð og parasetamól í raun öruggasti kosturinn.

Hannah Kirk, lektor í þroskasálfræði við Monash-háskóla í Ástralíu, tekur í sama streng. Hún segir að tengsl sem sumir hafi greint hverfi þegar tekið er mið af erfðum og öðrum umhverfisþáttum. „Það bendir til þess að aðrir þættir, svo sem heilsufar móður, skýri niðurstöðurnar frekar,“ segir hún.

Sérfræðingar minna einnig á að ómeðhöndlaður hiti á meðgöngu geti sjálfur aukið líkur á neikvæðum fylgikvillum. Því geti parasetamól í raun dregið úr áhættu.

Stephen Griffin, prófessor við Leeds-háskóla, kallar fullyrðingar Trumps „grimmilegar“ og segir þær geta hrætt þungaðar konur frá því að nota eitt öruggasta verkjalyfið sem í boði er.

Yfirlýsing forsetans kemur í kjölfar nýrrar rannsóknar frá Mount Sinai og Harvard-háskóla, sem byggði á gögnum frá yfir 100.000 einstaklingum. Rannsóknin benti á möguleg tengsl en lagði áherslu á að hún sýndi ekki orsakasamhengi. Þar var jafnframt mælt með að parasetamól væri aðeins notað í samráði við lækni, í sem lægstu skömmtum og í stuttan tíma.

Framleiðandi Tylenol, Kenvue, hafnar alfarið tengslum milli parasetamóls og einhverfu. Í yfirlýsingu til BBC segir fyrirtækið að „sjálfstæð, traust vísindi“ sýni að notkun asetaminófens valdi ekki einhverfu og að fullyrðingar um annað geti skapað alvarlega heilsufarslega áhættu fyrir verðandi mæður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Tyler Robinson látinn vera í sérstökum sloppi til að koma í veg fyrir sjálfsvíg – Hótaði að taka eigið líf

Tyler Robinson látinn vera í sérstökum sloppi til að koma í veg fyrir sjálfsvíg – Hótaði að taka eigið líf
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Starfsmaður stal ómetanlegu armbandi faraós – Endaði í bræðslupottinum

Starfsmaður stal ómetanlegu armbandi faraós – Endaði í bræðslupottinum