Samkvæmt heimildum DV bendir margt til þess að kveikt hafi verið í íbúð að Írabakka en eldur kviknaði þar á sjötta tímanum í gær.
Lögregla sagði í samtölum við DV í gærkvöld að ekkert lægi fyrir um eldsupptök en málið væri í rannsókn. Staðfest er að tækjabíll var sendur á vettvang brunans í gærkvöld.
Mbl.is greindi frá því að mjög greiðlega hefði gengið að slökkva eldinn og engan sakaði í brunanum.
Íbúi í íbúðinni sem um ræðir greinir frá brunanum í lokaðri færslu á Facebook og segir þar að um íkveikju hafi verið að ræða.
Eldsvoðinn átti sér stað í Írabakka 2-16 en öll blokkin er í eigu Félagsbústaða sem leigja hana út. Mikið ónæði og ófriður hefur verið í húsinu í gegnum tíðina eins og DV greindi frá í sumar. Sjá nánar hér.
Einn maður er núna í haldi lögreglu vegna rannsóknar á brunanum. RÚV greinir frá. Maðurinn verður yfirheyrður síðar í dag. Aðspurður segir Heimir Ríkharðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að verið sé að kanna hvort maðurinn eigi aðild að málinu. Ekki er hins vegar staðfest að um íkveikju hafi verið að ræða, tæknideild lögreglunnar er að skoða það.