Það að bílar stökkvi yfir hengibrýr er eitthvað sem við sjáum aðeins í bíómyndunum. Eða hvað? Í síðustu viku kom það fyrir að bíll á flótta undan lögreglu stökk yfir hengibrú og náðist það á myndband.
Dagblaðið The Seattle Times greinir frá þessu.
Atvikið átti sér stað í borginni Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna á miðvikudaginn í síðustu viku, þann 17. september, laust eftir hádegið. Lögreglan þar í borg fann með skanna bíl, af gerðinni Audi Q5, sem hafði verið tilkynntur stolinn og hóf eftirför.
Stöðvaði ökumaður hins stolna bíls ekki heldur tók á rás. Beðið var um aðstoð og bættust fleiri lögreglubílar í eftirförina sem varð sífellt hraðari.
Eftirförin hófst viðgatnamót gatnanna 10th Avenue East og Roanoke Street. Ók bílþjófurinn út á hengibrú sem kallast University Bridge. Þar var mikil umferð í sömu átt og bílar stopp til að bíða eftir að komast yfir brúnna.
Eins og sést á eftirlitsmyndavélum þá keyrði þjófurinn yfir á rangan vegarhelming, keyrði í gegnum stöðvunarhlið og tók stökkið yfir brúna. Þrír lögreglubílar komu á eftir honum en stöðvuðu við brúarendann, enda óðs manns æði að stökkva yfir.
Lögreglumaðurinn David Pritchard, sem hóf eftirförina, sagði það aldrei hafa komið til greina að stökkva á eftir bílnum.
„Þetta er ekki bíómynd. Við myndum aldrei gera neitt þessu líkt,“ sagði Pritchard við Seattle Times.
Seinna fannst hinn stolni Audi bíll í háskólahverfinu skammt frá brúnni. Það er stað sem kallast Pasadena Place Northeast. Bílþjófurinn bíræfni var hins vegar á bak og burt. Við skoðun kom í ljós að undirvagn bílsins var skemmdur, væntanlega eftir stökkið yfir brúnna skömmu áður. Framrúðan var einnig mölbrotin.
Enn þá hefur þjófurinn ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. En eftirförin var ekki aðeins á bílum heldur var lögregluþyrla kölluð út til þess að elta bílinn.
Fjallað hefur verið um málið í fleiri miðlum, meðal annars bílamiðlinum The Auto Wire. Þar er fólk hvatt til þess að reyna stökk eins og þetta alls ekki. Þetta sé miklu hættulegra og erfiðara en bíómyndirnar gefa til kynna.
Fyrir utan hættuna á manntjóni þá eru einnig miklar líkur á að bíllinn stórskemmist enda er fjöðrun hans ekki gerð fyrir stökk.
„Svo lítur þetta ekkert svo kúl á lélegri umferðarmyndavél úr mikilli fjarlægð,“ segir í greininni. Þá er bent á að í hvert skipti sem bíll er látinn stökkva yfir brú eða aðra sams konar hindrun í bíómyndunum þá gereyðileggist bíllinn sem myndaður er.