fbpx
Þriðjudagur 02.september 2025
Fréttir

Segir það hafa verið rangt að halda því fram að Úkraína gæti unnið stríðið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 2. september 2025 16:00

Hilmar Þór Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Evrópa hefði að mínum dómi átt að gera meira til að styðja við friðarviðræðurnar milli Úkraínu og Rússlands í Istanbul í mars/apríl 2022 í stað þess að halda því fram að Úkraína gæti unnið stríðið við Rússland á vígvellinum ef hún fengi bara réttu vopnin frá Bandaríkjunum og Evrópu. Hvaða friðarsamningar sem gætu náðst nú verða lakari en þeir sem þá voru mögulegir,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, en hann er núna staddur í rannsóknaleyfi í Taílandi.

Í viðtali á Samstöðinni í gær lýsti Hilmar m.a. annarri nálgun Asíuríkja en Evrópu á öryggismál (sjá í spilara hér neðst). Hilmar segir um þetta við DV:

„Þegar átök brutust út á milli Taílands og Kambódíu tóku Suðaustur-Asíulönd ekki afstöðu með öðru landinu gegn hinu. ASEAN (Samband Suðaustur-Asíuríkja), sem er efnahagslegt og stjórnmálalegt samband ríkjanna, miðlaði málum undir forystu Malasíu sem fer nú með formennsku innan ASEAN, en aðildaríkin eru Brúnei, Filippseyjar, Indónesía, Kambódía, Laos, Malasía, Mjanmar, Singapúr, Taíland og Víetnam. Aðildarríki ASEAN tóku ekki þá stefnu að lýsa því yfir að þau „héldu með“ öðru hvoru ríkinu heldur þrýstu á um friðarviðræður.

Taíland er um fjórum sinnum fjölmennara en Kambódía og er með rúmlega 10 sinnum stærra hagkerfi mælt í vergri landsframleiðslu samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Svipuð hlutföll og milli Úkraínu og Rússlands. Í Asíu eru lönd tregari til „að halda með“ eða „standa með“ einu ríki gegn öðru þegar átök brjótast út en krafa er um að leita samninga áður en átökin magnast og breiðast frekar út. Þarna er munur á Evrópu og Asíu. í Evrópu er tilhneiging að „halda með“ öðru landinu gegn hinu. Í tilviki Úkraínu að senda vopn og peninga og segja minna landinu að sigra það stærra á vígvellinum. Til lengri tíma endar slíkt líklegast með ósköpum eins og er að gerast í Úkraínu. Fámennara landið lendir í vandræðum á vígvellinum fyrr eða síðar. Dæmi um utanríkis- og öryggisstefnu Asíuríkja eru hin svokölluðu fjögur Nei Víetnam, sem í lauslegri þýðingu eru:

  1. Ekki standa með einu ríki á móti öðru (e. No siding with one country against another).
  2. Engin hernaðarbandalög (e. No military alliances).
  3. Engar erlendar herstöðvar (e. No foreign military bases).
  4. Ekki beita valdi eða hóta að beita valdi í alþjóðasamskiptum (e. No using of force or threatening to use force in international relations).

Hefur efasemdir um stækkun NATO

„Nú tala leiðtogar Evrópu um vopnahlé án skilyrða sem frá bæjardyrum Rússlands kemur ekki til greina. Yfirvöld í Rússlandi vilja friðarsamninga en hafa sett fram ákveðin skilyrði sem þarf að taka afstöðu til. Ég hef efasemdir um frekari stækkun NATO. NATO var stofnað árið 1949 með 12 aðildarríkjum en í dag eru aðildarríkin orðin 32. Það hafa átt sér stað tíu stækkanir síðan 1949 og sjö síðan Sovétríkin féllu 1991. Ég efast um frekari stækkun muni auka öryggi Evrópu,“ segir Hilmar og telur að mistök hafi verið gerð á leiðtogafundi NATO árið 2008:

„Á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008 var ályktað að Úkraína og Georgía færu í NATO. Pútin var á þeim fundi og þá sauð upp úr. Angela Merkel, þá kanslari Þýskalands, og Nicolas, Sarkozy forseti Frakklands, reyndu að stöðva þetta en tókst ekki. Þau áttuðu sig á hættunni.“

„Nú er staðan þannig að Úkraína er að miklu leyti í rúst eftir stríð sem staðið hefur yfir í þrjú og hálft ár. Hvorki ESB né NATO hafa neinar lausnir fyrir Úkraínu, geta ekki knúið fram neitt vopnahlé, hvað þá friðarsamning. Og þó að þau gætu fengið vopnahlé, að ég tali ekki friðarsamning, hefur ESB enga burði til að fjármagna uppbyggingu Úkraínu.“

Óviss staða NATO

„Staða NATO er óviss og Bandaríkin vilja ekki standa undir þeim kostnaði sem tengist NATO í framtíðinni í sama mæli og þekkst hefur frá stofnun 1949. Bandaríkin vilja ekki fjármagna Úkraínustíðið lengur og munu fá endurgreiðslu á stuðningi sínum með aðgangi að auðlindum Úkraínu. Öll frekari vopn frá Bandaríkjunum til Úkraínu þarf Evrópa að fjármagna og ljóst er að stór lönd eins og Frakkland og Ítalía munu ekki taka þátt í því.

Flest lönd ESB hafa ekki efni á að greiða 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála eins og Donald Trump forseti Bandaríkjanna krefst nema skera verulega niður í sínum fjárlögum sem getur valdið pólitískum óstöðugleika í Evrópu. Úkraínustríðið á líka sinn þátt í að veikja stöðu Evrópu gagnvart Bandaríkjumum sem meðal annars birtist í slæmum viðskiptasamningi við Bandaríkin með t.d. 15% tollum á útflutning ESB til Bandaríkjanna auk fyrirheita um fjárfestingar frá Evrópu til Bandaríkjanna sem erfitt er að sjá hvernig á að uppfylla því þetta væru fjárfestingar einkaðila sem EBS hefur ekki beina stjórn á.“

Afleikur Trumps

Hilmar Þór segir Trump hafa ýtt Indverjum í faðm Kína með háum refsitollum vegna olíukaupa þeirra frá Rússlandi:

„Svo hafa Bandaríkin ákveðið að refsa Indlandi fyrir að kaupa olíu frá Rússlandi með háum tollum sem hefur ýtt Indlandi í faðm Kína og Rússlands. Þetta var það síðasta sem Bandaríkin þurftu þegar þau í raun þurftu að styrkja sína stöðu í Asíu en ekki veikja hana til muna eins og nú er orðið.“

Evrópa gæti lært margt af Austur-Asíu í öryggismálum

Vegna þess að ég er nú í Asíu þá vil ég nefna Víetnam þar sem ég bjó í þrjú ár. Víetnam er með löng norðurlandamæri við Kína. Hvenær myndu Víetnamar ganga í varnarbandalag og láta svo reisa herstöð við landamæri Kína með erlendum hermönnum, t.d. frá Bandaríkjunum? Þeim dytti þetta aldrei í hug enda er stefnan þar á bæ að vera ekki í hernaðarbandalögum auk þess að hafa enga erlenda hermenn í landinu.

Ég held að Evrópa gæti margt lært af Austur-Asíu í öryggismálum. T.d. eins og gerðist þegar átök urðu milli Kambódíu og Taílands. Þá var strax farið í samninga með milligöngu Malasíu sem gegnir formennsku í ASEAN frekar en að löndin kepptust við að taka afstöðu og segja hvort þau héldu með Kambódíu eða Taílandi. Svo ég nefni Víetnam aftur þá er stefna þeirra að taka aldrei afstöðu með einu landi gegn öðru en leysa ágreining með samningum en ekki með valdi að hótunum um að beita valdi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hallgrímur kjaftstopp eftir að hafa lesið athugasemdirnar – „Hvað varð um þjóðina mína?“

Hallgrímur kjaftstopp eftir að hafa lesið athugasemdirnar – „Hvað varð um þjóðina mína?“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Eldri borgari gagnrýnir kjör sín og birtir skjáskot – Staðan þung og erfið

Eldri borgari gagnrýnir kjör sín og birtir skjáskot – Staðan þung og erfið
Fréttir
Í gær

Frönskum spítölum sagt að búa sig undir stríð – Ótti vegna heræfinga Rússa

Frönskum spítölum sagt að búa sig undir stríð – Ótti vegna heræfinga Rússa
Fréttir
Í gær

Dagur stoltur – „Að sjálfsögðu var þetta allt harðlega gagnrýnt og greidd mótatkvæði í borgarstjórn en því vilja sjálfsagt allir gleyma“

Dagur stoltur – „Að sjálfsögðu var þetta allt harðlega gagnrýnt og greidd mótatkvæði í borgarstjórn en því vilja sjálfsagt allir gleyma“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jesse lést tveimur dögum fyrir 10 ára afmæli sitt – „Allur stuðningur, stór sem smár, er fjölskyldunni ómetanlegur”

Jesse lést tveimur dögum fyrir 10 ára afmæli sitt – „Allur stuðningur, stór sem smár, er fjölskyldunni ómetanlegur”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir umræðu um innviðaskuld ferðamanna á villigötum – „Óhætt að segja að sínum augum lítur hver á silfrið”

Segir umræðu um innviðaskuld ferðamanna á villigötum – „Óhætt að segja að sínum augum lítur hver á silfrið”