Óhætt er að segja að frammistaða Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, í Kastljósi í gær hafi kveikt elda á samfélagsmiðlum. Snorri ræddi þar málefni hinsegin fólks við Þorbjörgu Þorvaldsdóttir, verkefnastýru Samtakanna ´78 og hefur uppskorið mikla gagnrýni fyrir framgöngu sína. Það eru þó síður en svo allir ósáttir við málflutning hans og ein þeirra sem tekur upp hanskann fyrir Snorra er Rósa Guðbjartsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
„Öll þau grófu ummæli sem hafa fallið um Snorra Másson eftir Kastljósumræðurnar í gær sýna að margir sem þykjast alfarið vera á móti hatursumræðu eru augljóslega bara á móti umræðu sem þeir sjálfir hata,“ skrifaði þingkonan á Facebook-síðu sinni og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Meinarðu þá einhverja Morfís umræðu um líf fólks og tilfinningar sem er smættað niður í orð eins og „hugmyndafræði“? Jú auðvitað verður það persónulegt og auðvitað verða viðbrögðin sterk. Hugsaðu aðeins málið, er líf þitt og þinna „hugmyndafræði“? Ef fjallað er um líf barnanna þinna í skólanum er þá verið að „innræta“ hinum „ákveðna hugmyndafræði“? Er það að þú viljir eiga hamingjusamt líf með þeim sem þú elskar „hugmyndafræði“? er það að leita hamingjunnar hugmyndafræði“? Er það að konur vilji vinna utan heimilis og sitja á þingi „hugmyndafræði“? Kannski verða viðbrögðin einmitt svona sterk vegna þess að jú þetta er persónulegt en við þekkjum líka söguna og við munum hvernig fór af því að við stóðum ekki upp og vörðum okkur þegar á þurfti að halda. mæli með að menn kynni sér t.d. stöðu hinsegin fólks í Þýskalandi á þriðja áratug síðustu aldar og þær hörmungar sem yfir það voru leiddar á grundvelli ótta hinna „venjulegu“ við fólk sem það stimplaði sem óæðra. Í þeirra huga var það ekki fólk, það var „hugmyndafræði“, skrifaði Felix Bergsson.
Séra Jóna Hrönn Bolladóttir kvað sér einnig hljóðs og vísaði í færslu systur sinnar, séra Hildar Eir Bolladóttur:
„Það er ekki þöggun þegar bent er á að fólk megi sjálft ákvarða kyn sitt og kynhneigð án þess að þurfa að færa fyrir því rök svo ungir Miðflokksmenn um allan heim geti andmælt með Morfísræðu eins og sjálfsmynd og tilfinningar samkynhneigðra og transfólks sé aðeins útdregið umræðuefni í keppni um ræðumann kvöldsins. Þetta er því miður skortur á félagslegu innsæi og samlíðan sem ég vona að eldist fljótt af ungum mönnum sem eiga eftir að braga betur á lífinu.”