Réttað verður á næstu dögum yfir manni sem ákærður er vegna nauðgunar vorið 2023.
Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara átti brotið sér stað mánudagsmorguninn 10. apríl árið 2023 á þáverandi heimili hins ákærða í Reykjavík. Maðurinn er sakaður um að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við konu. Er hann sagður hafa ýtt henni á hnén, slegið hana endurtekið í andlitið og víðsvegar um líkama hennar, tekið hana endurtekið hálstaki og lagt kodda yfir andlit hennar svo hún átti erfitt með andardrátt. Er hann sagður hafa stungið fingrum sínum í leggöng hennar, þrýst hné sínu á ofanverða bringu hennar og haft sáðlát yfir andlit hennar.
Af árásinni hlaut konan yfirborðsáverka á höfði, eymsli á vinstri kjálka, tognun og ofreynslu á hálshrygg, tognun og ofreynslu á axlarlið, tognun og ofreynslu á aðra og ótilgreinda hluta lendahryggs og mjaðmagrindar, heyrnartap og rifbrot.
Af hálfu konunnar er gerð krafa um 3,5 milljónir í miskabætur.
Aðalmeðferð, þ.e. réttarhöld í málinu, verður við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 11. september og er þinghald lokað.