Greint er frá því á heimasíðu og Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) að hjónin Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sigurgeir Már Jensson læknir fangi nú merkum tímamótum á Heilsugæslunni í Vík.
Ætlun þeirra hafi upphaflega verið að starfa á heilsugæslunni í 1 ár en árin hafi á endanum orðið 40 en Helga endaði ferilinn sem hjúkrunarstjóri í Vík og Sigurgeir sem yfirlæknir. Störf hjónanna á þessum 40 árum eru sögð ómetanleg.
Í færslu á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands eru hjónunum færðar þakkir og hamingjuóskir vegna tímamótanna:
„Við þökkum þeim kærlega fyrir ómetanlegt starf og óeigingjarna þjónustu í þágu samfélagsins.“
Færsluna með myndum úr kveðjuhófi hjónanna má sjá hér fyrir neðan.
Á heimasíðu stofnunarinnnar er rætt við Helgu. Hún segir að þau hjónin hafi komið til starfa á heilsugæslunni árið 1985. Ástæðan hafi helst verið sú að á þeim tíma hafi læknar þurft að starfa í dreifbýlishéraði í nokkra mánuði til að fá lækningaleyfi. Þetta hafi verið til að tryggja mönnun og að ungir læknar öðluðust reynslu af slíkum störfum. Sigurgeir hafi raunar fyrst starfað á heilsugæslunni á Dalvík til að uppfylla héraðsskylduna en ætlun hans hafi verið að sérhæfa sig í lyflækningum. Hann hafi hins vegar fundið að störf á heilsugæslu hafi átt vel við hann. Þegar auglýst hafi verið eftir lækni og hjúkrunarfræðingi í Vík 1985 hafi þau ákveðið að sækja um og ætlað að prófa að vera þar í 1 ár en 40 árum síðar hafi þau ekki enn verið farin.
Helga fer yfir þær breytingar sem orðið hafa á starfseminni í Vík á þessum 40 árum. Stjórnskipulagið hefur breyst töluvert en mestu breytingarnar eru líklega þær hversu mikil fjölgun hefur orðið á starfssvæði heilsugæslunnar:
„Það sem áður var rólegt sveitahérað með innan við 1000 íbúa er nú einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna, landið iðandi af mannlífi og líklega tugir þúsunda oft á tíðum á svæðinu. Það liggur í hlutarins eðli að álag eykst og útköllum fjölgar.“
Samsetning íbúa á svæðinu hefur einnig breyst og nú er meirihluti þeirra af erlendum uppruna.
Það er misjafnt hversu vel hjónum getur gengið að vinna saman en Helga segir að það hafi gengið mjög vel hjá henni og Sigurgeiri:
„Okkur lætur vel að vinna saman og við höfum átt því láni að fagna að fá úrvalsfólk til starfa með okkur. Að vera alltaf á vaktinni tilbúin að bregðast við hverju því sem upp kann að koma gerir starfið að lífsstíl að einhverju leyti. Í vinnunni erum við fagmenn og hamingjusöm hjón heima.“
Helga segir þau hjónin njóta samverunnar og standi þétt saman. Það hafi komið sér vel í því mikla álagi sem þau hafi oft þurft að starfa við að þekkjast svona vel:
,,Við höfum oft fundið það t.d. í bráðum útköllum hversu gott er geta unnið hratt án margra orða og þekkja styrk hvors annars. Við eigum ómælt safn minninga margra afar ánægjulegra og oft húmorískra en við eigum líka margar minningar um hamfarir og mikla sorg, þá er gott að eiga tryggan sálufélaga í úrvinnslunni.“
Helga segir hana og Sigurgeir vera þakklát fyrir árin 40. Vel hafi verið tekið á móti þeim í Vík og það sé ekki síst fólkið á svæðinu og náttúran sem hafi haldið þeim á staðnum svona lengi.
Þess er loks getið að dóttir þeirra Margrét Lilja sé starfandi hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vík. Hvort hún á eftir að starfa þar í 40 ár eins og foreldrar sínir á hins vegar eftir að koma í ljós.
Þegar athugasemdir við færsluna á heimasíðu HSU eru lesnar þá blasir við að Helga og Sigurgeir eru mikils metin af íbúum á svæðinu:
„Sigurgeir og Helga eru mikið eðalfólk. Í raun lifandi goðsagnir.“
„Þarna er heimilislæknir sem sér um sína sjúklinga. Það verður missir fyrir staðinn þegar þau hætta hjónin.“
„Miklir fagmenn með heildræna sýn og einstaka þjónustulund.“
„Topp fólk!! Við erum heppin að eiga þau að, ómetanlegt!“