Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar furðar sig á því hversu lítið athafnamaðurinn Einar Bárðason virðist þekkja það félag sem hann er í forsvari fyrir. Einar er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og sagðist í dag ekkert kannast við tengsl félagsins við meinta gervistéttarfélagið Virðingu.
Einar ræddi við Vísi og hvatti Sólveigu Önnu til að mæta á haustfund SVEIT á miðvikudaginn, en þar standi til að kynna starfsemi samtakanna. Einar neitaði að SVEIT hefði nokkra aðkomu að stéttarfélaginu Virðingu og hafi Einar sjálfur ekki náð í nokkurn mann þar á bæ síðan hann tók við starfi sínu, hvorki símleiðis né í gegnum tölvupóst.
Sólveig hafði gagnrýnt að Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hafi boðað komu sína á haustfund SVEIT en mikið hefur verið fjallað um deilur Eflingar og SVEIT undanfarin misseri, þá einkum í tengslum við stofnun stéttarfélagsins Virðingar. DV greindi frá því í desember að mikil eigna- og fjölskyldutengsl væru milli SVEIT og Virðingar en Efling hefur lengi haldið því fram að um gervistéttarfélag sé um að ræða sem SVEIT hafi stofnað til að losna undan kjarasamningum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Eins og áður segir kannast Einar Bárðason ekki við þessi tengsl. Sólveig Anna skrifar á Facebook að það sé vægast sagt furðuleg fullyrðing frá framkvæmdastjóranum enda hafi hann aðeins þurft að skoða heimasíðu SVEIT til að sjá vísbendingar um þessi tengsl.
„Það er nú aldeilis áhugavert. Ég var að skoða heimasíðu SVEIT bara rétt í þessu og vitiði hvað má sjá á forsíðunni? Umfjöllun um svokallaðan kjarasamning SVEIT og Virðingar: „Aðildarfélagar SVEIT greiddu atkvæði um endurskoðaðan kjarasamning við stéttarfélagið Virðingu fyrir helgi og var niðurstaðan sú að samningurinn var samþykkur með 95% atkvæða.“ Og það er líka flipi á heimasíðunni sem heitir Kjarasamningur og þar má lesa kjarasamninginn. Getur verið að framkvæmdastjóri SVEIT hafi aldrei skoðað heimasíðu SVEIT? Ég hef náttúrulega aldrei verið framkvæmdastjóri og veit ekki hvort það má bara sleppa því að skoða heimasíðurnar sem maður framkvæmdastýrir. Kannski er það kennt í viðskiptafræði eða Stjórnun fyrir lengra komna?
Það hlýtur að vera mjög erfitt að vera aðalsjálf og ná ekki í hliðarsjálfið. Gæti verið efni í spennandi sálfræðitrylli.“
Einar sendi tilkynningu á fjölmiðla í dag þar sem hann segist hafa verið í sambandi við aðstoðarfólk ráðherra. SVEIT hafi ekki áhuga á að draga ráðherrann inn í deilur samtakanna við Eflingu og gera ráð fyrir að hann dragi þátttöku sína á haustfundi SVEIT til baka.
„Sólveig Anna hefur borið Sveit þungum sökum sem ráðherrann á vitanlega enga aðkomu að,“ segir í tilkynningunni. En þar er einnig tekið fram að Virðing hafi ekki verið stofnað af SVEIT.
„Varðandi erindi Sólveigar, þá verð ég að ítreka það að Sveit er EKKI aðili að samningum SA við Eflingu þannig erum við í engu samtali við Eflingu og EKKI aðilar að neinum samningum við Eflingu. Stéttarfélagið Virðing var EKKI stofnað af Sveit og ítök okkar eru ekki meiri þar en svo að ég sem nýr framkvæmdastjóri hef ekki náð sambandi við nokkurn mann þar, hvorki símleiðis né í gengum tölvupóst frá því ég hóf störf.“