Rúmlega tvítug kona frá Akureyri hefur verið ákærð fyrir stórfellt fíkniefnabrot en ákært er vegna atviks frá 21. febrúar árið 2024.
Unga konan er í ákæru héraðssaksóknara sögð hafa staðið að innflutningi á tæplega þremur kílóum af ketamíni með 87% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi.
Ketamínið flutti konan til landsins með farþegaflugi frá Alicante á Spáni til Keflavíkurflugvallar. Voru efnin falin í tveimur leikfangakössum í farangri ákærðu við komuna til Íslands.
Ketamín er svæfinga- og verkjastillandi lyf sem er skaðlaust við læknisfræðilega meðhöndlun. Við notkun utan eftirlits læknis getur það verið hættulegt vegna áhrifa á meðvitund og hreyfigetu, auk þess veldur það ofskynjunum og getur verið ávanabindandi. Ennfremur veldur það álagi á lifur, blöðru og nýru við langvarandi notkun.
Magnið sem konan flutti inn af ketamíni dugar í tugþúsundir skammta.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Norðurlands eystra þann 17. september næstkomandi.