Upptökin voru um 27 kílómetrum frá borginni Jalalabad, fimmtu fjölmennustu borg landsins, og 140 kílómetrum frá höfuðborginni Kabúl.
Skjálftinn reið yfir rétt fyrir miðnætti að staðartíma í gærkvöldi og segir í frétt BBC að mörg hús á svæðinu hafi hrunið í kjölfar skjálftans. Fjarskiptasamband er lítið á svæðinu og því hafa upplýsingar borist tiltölulega hægt.
Þá segir í frétt BBC að á svæðinu séu að stóru leyti einungis mjóir fjallvegir sem hefur gert viðbragðsaðilum erfitt fyrir. Innanríkisráðuneyti Afganistans sagði nú í morgunsárið að yfir 1.300 hafi slasast í skjálftanum og er viðbúið að tala látinna muni hækka á næstu klukkutímum.