Haraldur Sigurðsson, prófessor emerítus í jarð- og jarðefnafræði, segir stjórnvöld hafa stungið höfðinu í sandinn varðandi hættuna af því að Golfstraumurinn hverfi. Framreiknuð gildi losunar séu ekkert annað en pólitískur draumur.
„Það tekur tíu ár áður en almenningur byrjar að hlusta, en taka yfirvöld þá nokkuð við sér?“ segir Haraldur í færslu á samfélagsmiðlum. Tilefnið eru nýlegar fréttir um ógnina sem stafar af hruni Golfstraumsins.
Eins og segir í frétt The Guardian eru nú mun meiri líkur á að Golfstraumurinn hrynji eftir 50 til 100 ár. Það er 70 prósent ef losun kolefnis eykst en 37 prósent ef hún helst óbreytt. Hrun Golfstraumsins myndi gera Ísland svo til óbyggilegt vegna kulda.
Haraldur hefur bloggað um breytingar á Golfstraumnum í tíu ár. En þegar hann byrjaði á því, árið 2015 voru komin skýr merki um að hlýir hafstraumar sem streyma norður Norður Atlantshafið væru að hægja á sér. Þetta kynni að valda miklum loftslagsbreytingum á norðurhveli.
„Þá var orðið nokkuð greinilegt meðal vísindamanna hvert stefndi,“ segir Haraldur. „Síðan hefur ástandið stöðugt versnað, en höfuð orsök í þessu alvarlega máli er sívaxandi magn af koldíoxíði í andrúmsloftinu. um heim allan og hnattræn hlýnun sem stafar af því.“
Segir hann að áhrifin verði sennilega miklar á breytingar á loftslagi, sjávarhita og hafstraumum í Norður Atlantshafi. Miðpunkturinn í þessum hamförum er Ísland og gætu þær hafist strax á næstu áratugum.
„Opinbert hefur sáralítið verið fjallað um þetta mikilvæga efni á Íslandi. Mig grunar að ríkisstjórnin hafi nú áttað sig á því að málið er risastórt og mikilvægt, en þær vilja þegja í lengstu lög og vona að það hverfi á einhvern yfirnáttúrulegan hátt. Stingi hausnum í sandinn,“ segir hann.
Bendir hann á losunartölur Íslands, sem Umhverfis- og Orkustofnun birtir frá 2005 til 2024. Þær sýni að árleg losun á Íslandi hafi verið í kringum 3 milljónir tonna kolefnis og hafi sáralítið breyst þrátt fyrir ítrekuð loforð um minnkun.
„En maður tekur strax eftir einu þegar slík línurit eru skoðuð frá hinu opinbera, en það er, að framreiknuð söguleg þróun á losun á CO2 sýnir alltaf lækkandi losunargildi,“ segir hann og birtir mynd af slíku grafi. „Þessi framreiknuðu ´gildi´ eru auðvitað skáldskapur, sem er ekki byggður á neinum skipulögðum stefnumörkum, heldur pólitískur draumur. Við munum öll minnast þess í framtíðinni að þessi og fyrri ríkisstjórnir á Íslandi hafa ekkert gert í því að draga verulega úr losun CO2 og er Ísland einn mesti sóðinn á þessu sviði.“