Breskur ferðamaður sem lauk nýlega tveggja vikna ferðalagi um Ísland segist gáttaður á slæmri umferðarmenningu á Íslandi. Íslendingar séu óagaðir ökumenn sem brjóti margar reglur og sýni litla tillitssemi.
„Ég átti ótrúlegar tvær vikur á Íslandi en eitthvað sem ég heyri ekki talað um er lélegur akstur hérna,“ segir ferðamaðurinn, gáttaður á íslenskri umferðarmenningu, í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit.
Nefnir hann fjóra hluti sem honum finnst helst að íslenskri umferð.
„Mjög fáir ökumenn keyra á löglegum hraða, eiginlega eru það aðeins ökumenn stórra húsbíla sem gera það,“ segir hann.
„Framúrakstur (verulega yfir löglegum hámarkshraða) er venjan og er gerður á hættulegan hátt í sífellu, í beygjum, þegar umferð er að koma úr gagnstæðri átt og í slæmu skyggni,“ er annar punkturinn.
„Agi á akreinum er lélegur sem þýðir að bílar úr gagnstæðri átt sveigja reglulega inn á manns eigin akrein á mjög miklum hraða,“ sá þriðji.
Þá nefnir hann að slæmur akstur sé ekki eingöngu á þjóðvegum á landsbyggðinni heldur einnig í umferðinni í Reykjavík.
„Á stærri vegum í Reykjavík víkja ekki allir fyrir þegar umferð er að sameinast,“ segir hann. En það sama eigi við víða á landsbyggðinni. „Enginn vinkar þegar þú víkur fyrir þeim, til dæmis á einbreiðum brúm eða á þröngum götum. Helvíti dónalegt!“ segir hann.
Hafa um þetta skapast miklar umræður. Eru sumir sammála hinum breska ferðamanni að umferðarmenning sé slæm á Íslandi.
Einn Íslendingur nefnir að íslenskir ökumenn séu í sífelldum flýti. „Þeir þekkja aðstæður á vegunum og vita hvar mælt er fyrir hraðakstri þannig að þeir víla það ekki fyrir sér að keyra 10 kílómetrum á klukkustund yfir hámarkshraðanum og taka fram úr ef þú dirfist að loka fyrir útsýni þeirra yfir næstu 200 metra af auðum vegi,“ segir hann.
Annar bendir á að tölfræðin segi sína sögu varðandi umferðina á Íslandi. Umferðin sé ekkert verri á Íslandi en annars staðar.
„Ég held að við séum að tala um að fólk sé vant umferðinni heima hjá sér en svo kemur það á nýjan stað og þarf að takast á við bæði aðra ferðamenn og heimamenn. Allt er öðruvísi,“ segir hann.
Nefnir hann að dánartíðni í umferðinni sé sú sama á Íslandi og í Bretlandi. Það er um 2,3 til 2,4 dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa, sem sé frekar lág tíðni. Þá sé dánartíðni hærri hjá erlendum ferðamönnum í umferðinni á Íslandi.