fbpx
Mánudagur 11.ágúst 2025
Fréttir

Hyggst leita réttar síns gagnvart sveitarstjóra Mýrdalshrepps – „Hundarnir svæfðir í fanginu á mér meðan ég er hágrátandi“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 8. ágúst 2025 20:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elfar Þór Helgason, eigandi hundanna Kols og Korku, sem aflífaðir voru að kröfu sveitarstjóra Mýrdalshrepps, ætlar að leita réttar síns gagnvart sveitarstjóranum Einari Frey Elínarsyni. Í gær felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun sveitarstjórans um að tveir hundar Elfars skyldu aflífaðir. Taldi nefndin sveitarstjórann ekki hafa gætt rannsóknarskyldu, meðalhófs og andmælaréttar Elfars, auk þess sem leiðbeiningum til hans hefði verið verulega ábótavant. 

„Er því um slíka annmarka á máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ræða sem leiða eigi til ógildingar hennar, enda ekki loku fyrir það skotið að ákvörðunin snerti lögvarða hagsmuni kæranda þótt aflífun hundanna sé þegar afstaðin,“ segir í úrskurðinum. Hundar Elfars voru aflífaðir tveimur tímum eftir að þeir hlupu af heimili sínu.

Kolur og Korka. Mynd: Aðsend.

DV fjallaði um málið fyrr í dag. Málið hófst með því að 16. maí síðastliðinn fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að tveir hundar í lausagöngu hefðu bitið lamb til ólífis við Víkurkletta í Mýrdalshreppi. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda sauðfjárhóps og eiginmann hennar. Sögðust þau hafa komið að hundum Elfars Þórs þar sem þeir hefðu verið búnir að drepa minnst eitt lamb, og hundarnir hafi staðið yfir dauða lambinu. Hjónunum hafði tekist að snara ólum utan um hálsinn á hundunum og koma þeim inn í bifreið sína.

Sjá einnig: Sveitarstjórinn fór offari þegar hann lét lóga tveimur hundum

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.

Á leið lögreglu á vettvang hafði Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri hreppsins, samband við lögregluna símleiðis og tilkynnti þeim að hundunum skyldi lógað þegar í stað. Dýralæknir sveitarfélagsins var því kölluð á vettvang. Elfar segir í samtali við DV að lögreglan hafi einnig hringt í hann og sagt honum hvað væri framundan, hann var því viðstaddur þegar hundar hans voru aflífaðir. 

Elfar hafði átt hundana Kol, 11 ára, og Korku, 10 ára, sem báðir voru blanda af tegundunum Border collie og Labrador frá því þeir voru nokkurra mánaða gamlir.

„Við flytjum í Vík í nóvember 2023. Eins og komið hefur fram í fréttum þá er húsnæði hér af skornum skammti þannig að ég redda stóru hjólhýsi, sem vinnuveitandi minn lét flytja austur og er það fasttengt í rafmagn og skólp hér við hliðina á vinnustaðnum mínum. Það skemmdist í vetur út af snjóþunga og búið að vera að bras að loka hurðinni. En ég var bókstaflega að bíða eftir síðustu skrúfunum til að laga þetta,“ segir Elfar.

Hundarnir voru yfirleitt í hjólhýsinu þegar hann var í vinnu, og segist Elfar hafa athugað með hundana í kaffitímum og hádegismat. 

Þar sem hurðin á hjólhýsinu var skemmd eins og áður sagði áttu hundarnir auðvelt með að sleppa út og þennan dag sluppu þeir út um hádegi. Segir Elfar að hann og konan hans hafi bæði verið að leita að hundunum þegar Elfari barst símtalið frá lögreglunni.

„Lögreglan segir mér að það sé búið að finna hundana mína og það sé ákvörðun sveitarstjóra að aflífa þá á staðnum vegna þess að þeir voru svona eiginlega staðnir að verki. Hvað þýðir eiginlega staðnir að verki? Hundarnir finnast og tveimur tímum seinna er búið að aflífa þá.

Sveitarstjórinn hringir í lögregluna þegar lögreglan er á leiðinni á staðinn og segir að þurfi að aflífa hundana strax. Hann kemur aldrei á staðinn til að skoða aðstæður. Hann ákveður  í gegnum síma að þessir hundar séu hættulegir og það verði að aflífa þá punktur.“ 

Elfar segir lögregluna hafa hringt í hann til að láta hann vita hvað væri framundan og sagt: „Okkur ber ekki skylda til að tilkynna þér þetta. En þar sem við þekkjum þig þá vildum við leyfa þér að koma og kveðja.“ 

Elfar með hundana sína. Mynd: Aðsend.

Segir sveitarstjórann hafa sagt að grátandi símtal væri andmælaréttur Elfars

Elfar segir lögreglumennina hafa sagt honum að hann hefði engan andmælarétt en gæti reynt að leita réttar síns eftir á.

„Ég hringi í sveitarstjórann hágrátandi: „Bara ég skal borga lambið, ég skal koma hundunum í burtu. „Eins og hann sagði við mig: „Ég er sauðfjárbóndi sjálfur og ég líð ekki svona. Það verður að lóga þeim strax. Þetta var orðið sem ég fékk að heyra frá honum. Það gilda reglur um meðalhóf og svona og það þarf til dæmis að afturkalla hundaleyfið. Hann segir að ég hafi fengið andmælarétt með því að hringja í hann og segja: „Plís ekki lóga hundunum mínum.“ Það er ekki löggildur andmælaréttur. Hundana hefði átt að setja í geymslu hundahaldara, í þessu tilviki af því við erum úti á landi í áhaldahúsið.

Þegar lögreglan segir að hundarnir hafi svona eiginlega verið staðnir að verki þá hélt ég að væri um skæðadrífu af dauðum lömbum að ræða. Svo fer lögreglan með mér á staðinn, hérna fimm mínútum út úr Vík, og þá sé ég að það er eitt lítið lamb þarna liggjandi og einhvers staðar heyrði ég útundan mér að það væri eitt lítið bit. Sjálfur var ég ekki í einhverju ástandi til að fara og skoða lambið og rannsaka það. Dýralæknirinn gerði það ekki heldur, hún kom bara á svæðið, aflífaði hundana og fór. Ég held að bændurnir hafi fargað lambinu. Það var engin rannsókn gerð.

Það var búið að fanga hundana inni í bíl og ég sleppti þeim út úr bílnum. Lögreglan heldur þeim svo eru hundarnir svæfðir í fanginu á mér meðan ég er hágrátandi. Svo var mér boðið að taka hundana mína eftir að þeim var lógað.“ 

Elfar segist þó ekki hafa gert það heldur fór lögreglan með hundana á lögreglustöðina þar sem þeir voru geymdir, síðan tók dýralæknirinn þá heim til sín og setti í frysti, þar til hann átti næst leið til höfuðborgarinnar til að fara með þá í brennslu. Aska hundanna er nú komin til foreldra Elfars sem búsett eru í Kópavogi.

Elfar Þór Helgason. Mynd: Aðsend.

Engin rannsókn fór fram og Elfar spyr hver ábyrgð lögreglunnar sé

Segir Elfar að engin rannsókn hafi farið fram á atvikinu, sveitarstjórinn hafi ekki mætt sjálfur á staðinn til að skoða aðstæður. Dýralæknirinn hafi ekki skoðað lambið. 

„Hver er ábyrgð lögreglunnar að aðstoða sveitarstjórann við að brjóta lög. Ætti ekki lögreglan að skoða málið áður en ákvörðun er tekin, áður en íþyngjandi ákvörðun er tekin, ætti ekki að vera einhver rannsókn? Það var bara eins illa að þessu staðið og mögulegt er. Þetta er bara frekja og yfirgangur.

Dýralæknirinn sagði sjálf við mig að henni hefði fundist þetta rangt. En henni hefði fundist hún nauðbeygð þar sem bæði lögreglan og sveitarstjórinn voru búin að skipa henni fyrir,“  segir Elvar sem segist ekki bera neinn kala til hennar.

„Henni fannst hún nauðbeygð til að hlýða skipunum lögreglu og yfirvalds.

En ég mætti nú sveitarstjóranum á veitingastað stuttu eftir þetta. Hann kom þarna voðalega rokinn inn og svo sá hann mig, stakk hausnum niður og hljóp út.“ 

Íbúar kvörtuðu aldrei undan hundunum og Matvælastofnun gerði engar athugasemdir

Eins og kom fram í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá hafði Elfar einu sinni fengið heimsókn frá Matvælastofnun sem mættu til að taka út aðbúnað og ástand hundanna og gerðu þeir engar athugasemdir.

Aðspurður um hvort íbúar í Vík hafi eitthvað kvartað við hann undan hundunum, lausagöngu þeirra eða ónæði vegna þeirra, svarar hann neitandi. 

Sveitarstjórinn minntist ekkert á hundana á fundi hálfum mánuði áður

Tveimur vikum áður en hundarnir voru aflíðaðir hitti Elfar sveitarstjórann á fundi þar sem þeir ræddu húsnæðismál Elfars. Segir Elfar, eins og fram kemur líka í úrskurðinum, að þar hafi Einar ekki minnst orði á hundanna. Segir Elfar þennan fund hafa verið kjörið tækifæri til að ræða hundamálið ef Einar hefði eitthvað við lausagöngu hundana að athuga.Elfar segir einnig að séu hundar taldir vera til ama þá þurfi að senda eigandanum skriflega viðvörun. Hann segist þó aðspurður ekki vita hvort ein dugi til, eða þurfi fleiri. En hann fékk aldrei neina slíka. Mál hans voru heldur aldrei rædd á fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps.

„Ég hitti oddvita sveitarstjórnar eftir þetta hér í vinnunni og spurði hvort málið mitt hefði verið rætt á sveitarstjórnarfundi og fékk það svar að sveitarstjórinn mætti taka svona ákvarðanir einn. Mér skilst að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Einar sýnir svona valdníðslu og yfirgang hérna. Hann er sauðfjárbóndi, rekur gistihús og er sveitarstjóri.“

Ætlar í mál við Einar sveitarstjóra og hefur óskað eftir fundi við ráðuneytið

Elfar segist ætla áfram með málið og er hann búinn að ræða við lögfræðing. Elfar og faðir hans eru einnig búnir að senda beiðni um fund með Innviðaráðuneytinu, þar sem þeir vilja að reglur um hundahald verði samræmdar um land allt. Nefnir Elfar að reglur á höfuðborgarsvæðinu séu mjög strangar. 

„Þar getur lögreglan ekki komið inn á heimili og tekið hunda, ekki einu sinni ef hundurinn er staðinn að því að bíta einhvern. Það er svo strangt ferlið. Það þarf að fara í gegnum atferlisfræðing upp á skapgerðarmat hundsins. Hérna tók Einar sveitarsjóri bara ákvörðun á staðnum af því hann taldi sig hafa rétt á því. Samkvæmt reglum Mýrdalshrepps er heimilt að lóga úr hundum sem bíta þegar í stað. En ef þú skoðar reglugerð í Kópavogi, þá stendur að ef hundur bítur þá skal gera skapgerðarmat og fleira.

Hundaleyfisgjöld eru trygging gagnvart tjóni til þriðja aðila sem að hundur kann að bera. Einar bar fyrir sig að hundarnir væru óskráðir, sem þeir voru ekki, þeir voru skráðir  í Kópavogi þar sem ég er með lögheimili hjá foreldrum mínum. Og öll hundaleyfisgjöld greidd.“

Elfar segir að enn hafi ekki fengist svar með fund hjá Innviðaráðuneytinu:

„Við höfum engin svör fengið nema þeir svöruðu mánuði seinna að við ættum að tala við atvinnuvegaráðuneytið. Þannig að við spurðum forsætisráðuneytið sem svaraði innan sólarhrings að þeir gætu ekki tekið þetta inn á sitt borð, þetta yrði að fara fyrir  innviðaráðuneytið og við yrðum bara að reyna áfram.“

Segir marga hundaeigendur ekki þora út með hundana sína

Segist Elfar vita um fleiri tilfelli þar sem sveitarstjórinn tók einhliða ákvörðun um að hundum yrði lógað.

„Einnig var bóndi hér sem flutti inn geitur úr annarri sveit og beið eftir leyfi frá MAST. Einar vildi ólmur lóga þeim, svo datt leyfið inn og þá gat hann ekkert gert.

Svo bar hann fyrir sig að hann bæri bara hag allra íbúa og ferðamanna í Vík fyrir brjósti sér og hannn væri hræddur um að hundarnir færu nú bara í barn næst. Það er hundaþjálfari og atferlisfræðingur sem vann að mestu með þessa hunda og þeir sýndu engin merki um árásargirni. Og að bulla um það að þeir séu að fara að stökkva á börn af því að þeir fóru mögulega kannski í rollu, það er fáránlegt.

Það er mikil ólga hér í samfélaginu eftir þetta, ég veit það eru aðrir hundaeigendur hérna í Vík sem hreinlega þorðu ekki út með hundana sína eftir þetta til að byrja af því þeir vissu ekkert hvað manninum myndi detta í hug.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá

Látinn eftir fall í Vestari Jökulsá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Múslimum bannað að halda trúarhátíðir á opinberum stöðum

Múslimum bannað að halda trúarhátíðir á opinberum stöðum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur

Heimilt verði að hafa hættulega menn áfram í haldi eftir að afplánun lýkur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi