Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra birtir sjö staðreyndir um útlendingamál í grein á Vísir.is. Hún hefur látið gera greiningu á dvalarleyfismálum hér á landi og er þeirri vinnu ekki lokið. Hins vegar liggja fyrstu niðurstöður fyrir og eru þær um margt áhugaverðar.
Meðal annars kemur fram að á árunum 2017-2023 fjölgaði íbúum Íslands um fimmtánfalt miðað við Evrópu og fjórfalt miðað við hin Norðurlöndum. Erlendir ríkisborgarar eru 68% af þessari fjölgun.
Einnig kemur fram að hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi var svipað og á öðrum Norðurlöndum árið 2017 en núna er þetta hlutfall orðið miklu hærra, um 17% en 9% á hinum Norðulöndunum.
Ennfremur segir að á árunum 2021-2033 voru útgefin hlutfallslega yfir 60% fleiri dvalarleyfi á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.
Einnig kemur fram í grein Þorbjargar að umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi fari ört fækkandi en séu samt margar miðað við íbúatölu landsins.
Hún segir að stjórnleysi í þessum málaflokki sé ekki neinum í hag og vinna þurfi eftir skýrri stefnu. Kynnir hún leiðir til úrbóta og segir þar horfa til hinna Norðurlandanna:
„Á komandi þingvetri mun ég leggja fram tillögur um afnám íslenskra sérreglna í útlendingamálum. Frumvarp hefur verið lagt fram um afnám svokallaðrar 18 mánaða reglu, sem nú veitir sjálfkrafa dvalarleyfi við drátt í málsmeðferð. Frumvarp um afturköllun alþjóðlegrar verndar fyrir þá sem brjóta alvarlega gegn íslenskum lögum verður lagt fram. Frumvarp um brottfarar- og greiningarstöð sömuleiðis. Öllum flugfélögum sem fljúga hingað til lands er nú skylt að afhenda farþegalista skv. nýjum lögum.“
Grein dómsmálaráðherra má lesa hér.