Luhn, sem er 38 ára, hugðist ganga á jökul í Folgefonna-þjóðgarðinum í Vestur-Noregi og lagði hann af stað frá bænum Odda þann 31. júlí síðastliðinn.
Luhn sendi eiginkonu sinni, Veroniku Silchenko, skilaboð síðdegis þann dag þar sem hann lýsti ferðaáætlun sinni, þar á meðal væntanlegri heimkomu á mánudag. Þegar hann skilaði sér ekki í flugið hafði Veronika samband við norsku lögregluna.
Það var svo í gærmorgun að Luhn fannst á lífi, kaldur og hrakinn, en að sögn viðbragðsaðila gengur það kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi.
Mail Online segir að Luhn hafi verið alvarlega meiddur á fæti eftir slys strax á fyrsta degi göngunnar. „Hann er alvarlega slasaður en ekki lífshættulega,“ segir Geir Arne Sunde, yfirmaður þyrlusjúkraflutninga á svæðinu.
Luhn var ekki með mat meðferðis til að dvelja í óbyggðum í viku og segist Stig Hope, yfirmaður aðgerðastjórnar á svæðinu, ekki muna eftir að einhver hafi fundist á lífi á svæðinu eftir að hafa gengið í gegnum álíka þrekraun.
„Því miður þá enda þessi mál ekki alltaf svona. Þetta er mikill léttir fyrir alla sem komu að leitinni,“ segir hann.