Vefútgáfa Guardian skýrir frá þessu.
Bannið er það fyrsta sinnar tegundar á Spáni en tillagan var lögð fram af fulltrúum íhaldsflokksins Partido Popular og samþykkt með hlutleysi frá öfgahægriflokknum Vox.
Í tillögunni segir að „íþróttamannvirki sveitarfélagsins megi ekki nýta til trúarlegra, menningarlegra eða félagslegra viðburða sem eru óskyldir okkar sjálfsmynd, nema þeir séu skipulagðir af sveitarstjórninni“.
Vox-flokkurinn fagnaði breytingunni á samfélagsmiðlinum X og sagði meðal annars að Spánn væri – og yrði að eilífu – land kristinna manna.
Mounir Benjelloun Andaloussi Azhari, formaður samtaka íslamskra trúfélaga á Spáni, segir í viðtali við El País að um „islamófóbíska” ákvörðun væri að ræða og beindist eingöngu gegn íslamstrú.
„Þeir eru ekki að ráðast á önnur trúarbrögð – þeir eru að ráðast á okkar trú,“ segir hann og viðrar áhyggjur sínar af vaxandi fordómum á Spáni. „Við erum mjög undrandi yfir því sem er að gerast á Spáni. Í fyrsta sinn í 30 ár finn ég fyrir ótta.“
Í Jumilla búa um 27.000 manns, þar af eru um 7,5 prósent með uppruna í löndum þar sem íslam er ríkjandi trú. Taldar eru líkur á að ákvörðunin verði kærð og rati fyrir dómstóla þar sem gagnrýnendur benda á að hún brjóti gegn ákvæðum spænsku stjórnarskrárinnar um trúfrelsi.
Juana Guardiola, fyrrverandi bæjarstjóri í Jumilla, bendir á að svæðið búi yfir margra alda íslömskum menningararfi. Jumilla var eitt sinn hluti af Rómaveldi og síðar ríki Vestgota þar til Arabar tóku svæðið undir sig á áttundu öld, að því er segir í umfjöllun Guardian. Fóru Arabar með stjórn á svæðinu í margar aldir, eða þar til kristnir hermenn gerðu árás og tóku það yfir á 13. öld.