Lexí Lára Brynjólfsdóttir og hundurinn hennar Míló eru að fara í gegnum erfiða daga. Míló er sárkvalinn því krossband í hægra hné hans er slitið. Hann þarf sárlega á aðgerð að halda en vandinn er sá að aðgerðin kostar um 400 þúsund krónur.
Lexí, sem býr á sambýli og glímir einnig við heilsuleysi, bað fyrir nokkrum dögum vini sína, ef þær gætu, um að létta undir með henni varðandi þennan kostnað. Þetta gerði hún í hæverskum, lokuðum færslum á Facebook-síðu sinni.
Karlmaður sendi henni vinabeiðni fyrir skömmu og í kjölfar beiðninnar fylgdu þessi orðaskipti á Messenger sem sjá má hér til vinstri.
Eins og sést bað Lexí manninn um að hætta þessu en hann lét sér ekki segjast. Hún blokkaði hann því. Segir hún í samtali við DV að þetta hafi verið óþægileg upplifun og það síðasta sem hún átti von á.
En hugur hennar er allur hjá Míló. „Ég bý á sambýli og er einhverf. En Míló fær að búa með mér og við erum bestu vinir. Hann sleit krossband og þess vegna þarf hann aðgerð. Maðurinn vissi þetta allt,“ segir hún.
Hún keyrir Míló um í kerru því hann getur ekki gengið.
„Elsku Míló minn er sárkvalinn en ég á mjög erfitt með að greiða svona háa upphæð svona snögglega. Ef einhver getur hjálpað mér þá væri það mjög vel þegið, svo hann fái að lifa áfram og njóta sín,“ segir Lexí.
Margt smátt gerir eitt stórt og fyrir þá sem geta og vilja leggja eitthvað af mörgum þá eru reikningsupplýsingar Lexí hér að neðan: