Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem umfjöllunarefnið er vindorkuver. Skrifar hann meðal annars um þá tillögu Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfisráðherra að virkjunarkosturinn Garpsdalur í Reykhólahreppi verði settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.
Í grein sinni rifjar Guðni upp ummæli Júlíusar Sólnes, fyrsta umhverfisráðherra Íslands, sem lýsti því í fyrra að hann hefði viljað að Ísland myndi lýsa því yfir að við yrðum vindmyllulaust land. Segir Guðni að ólíkt hafist þeir að, Júlíus og Jóhann Páll, og hinn síðarnefndi hafi „fengið eldingu í höfuðið eða hrasað á svelli æsku og reynsluleysis“ eins og Guðni segir.
Guðni rifjar upp að þann 7. Maí síðastliðinn hafi verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar skilað tillögu að flokkun 10 vindorkukosta til ráðherra. Lagði verkefnisstjórnin til að allir virkjunarkostir yrðu flokkaðir í biðflokk en Jóhann Páll lagði til að Garpsdalur yrði flokkaður í nýtingarflokk.
„Hví fórnar ráðherra Garpsdal með því að reisa náttúrunni níð með tugum vindmyllutrölla á Garpdalsfjalli? Hver vindmylla verður 250 metra há, en Hallgrímskirkjuturn er 75 metrar á hæð. Garpsdalsfjall rís yfir Reykhóla og vindmyllutröllin sjást víða að frá Snæfellsnesi, Dölum, Strandasýslu og Húnavatnssýslu. Ráðherra tekur þetta svæði fram yfir allt í því vindmylluæði sem skekur nú íslenskar byggðir og óbyggðir og fegurð lands vors. Er ráðherra sama um haförninn og vill hann kallast „arnarbani“,“ spyr Guðni og lýsir miklum efasemdum.
„Hvað greip ráðherrann sem kallaði á þessa fljótfærni? Og af hverju einmitt á þessum stað? Liggur hann af einhverjum ástæðum betur við höggi en aðrir? Spyr sá sem ekki veit – en grunar samt. Úr Reykhólahreppi berast þær fregnir að vindmyllumógúlarnir séu búnir að gefa öllum börnum spjaldtölvu og lofi miklum peningum í íþróttasjóð. Meirihluti hreppsnefndar, þrjár manneskjur, í 260 manna sveitarfélagi, geta tekið ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi.“
Guðni segir einnig að erlend stórfyrirtæki með peningasjóði sækist nú eftir því að reisa risavaxin vindorkuver og hefur áhyggjur af því að sveitarfélög geti verið ginnkeypt fyrir þessu öllu. Alþingi hafi þó æðsta vald með skýrri lagaumgjörð og stefnumörkun. Hann veltir einnig fyrir sér fleiri atriðum, eins og hvert orkan verður seld.
„Næsta krafa er sæstrengur inn á opinn Evrópumarkað, með hækkuðu orkuverði. Fram að þessu hefur Landsvirkjun í eigu þjóðarinnar farið með virkjanir fallvatnanna og gert það vel,“ segir Guðni sem kveðst þó gera sér grein fyrir því að vindurinn verði virkjaður hér á landi. Þó sé mikilvægt að gæta sín enda mikið í húfi.
„Það er mikilvægt að Alþingi taki þegar af skarið. Eða ætlum við Íslendingar að láta græðgina umturna landinu stefnulaust með vindorkuverum og færa erlendu auðvaldi heiðar og dali, fjöll, hálsa og mela til að virkja vindinn? Alþingi ber að móta heildarstefnu í vindorkumálum fyrir landið allt.“