Svona hefst áhugaverð færsla sem birtist í hópnum Visiting Iceland á samfélagsmiðlinum Reddit í gær. Þar tjáir erlendur ferðamaður sig um íslenska ökumenn og hann virðist ekki vera hrifinn af getu okkar Íslendinga undir stýri.
„Til dæmis hef ég tekið eftir að margir heimamenn sýna litla þolinmæði og hunsa oft hámarkshraða eða umferðarreglur,“ segir viðkomandi og bætir við innan sviga að stefnuljósin á ökutækjum séu til þess að nota þau.
Hann lýsir svo einu atviki þar sem minnstu munaði að illa færi.
„Í dag, á leiðinni til baka frá Hellu, beygðu að minnsta kosti fimm heimamenn fyrir mig á mjög hættulegan hátt,“ segir hann og nefnir að ökumenn hafi ekki hikað við að fara fram úr honum, jafnvel þó umferð væri að koma á móti. „Einn þeirra var næstum búinn að valda slysi. Þetta er ekki einsdæmi, heldur mynstur sem ég hef séð alla vikuna.“
Segir hann að farþegi í bíl hans hafi tekið mynd af bílnúmeri fyrrnefnds ökutækis og kveðst hann ætla að tilkynna málið til lögreglu.
Viðkomandi bætir við að hann taki eftir því á miðlum á borð við Reddit að túristar fái gjarnan að finna fyrir því vegna aksturshæfileika sinna. Hans upplifun – á Íslandi að minnsta kosti – sé þó þveröfug því þar séu heimamenn frekar til vandræða. „Ég er farinn að velta fyrir mér hvort það séu engin almenning ökunámskeið hér á landi,“ segir hann.
Hann segir að lokum að hann hafi ekið eins hratt og lög gera ráð fyrir og í takti við umferð eins og þurfti. Spyr hann aðra ferðamenn hver þeirra upplifun er.
Margir hafa lagt orð í belg við færsluna og sitt sýnist hverjum. Einn bendir á að hans upplifun sé sú að svona sé þetta alls staðar. Heimamenn, ekki bara á Íslandi, séu gjarnan afslappaðri í umferðinni og leyfi sér meira en túristar sem eru oftar en ekki óvanir umferðarmenningu annarra landa.
Einn, sem kveðst vera Íslendingur, segir að Íslendingar séu almennt góðir ökumenn í snjó og erfiðum aðstæðum. „En við erum hræðilegir ökumenn þegar kemur að því að virða umferðarlögin og högum okkur oftar en ekki eins og við séum konungar þjóðvegarins.“
Annar Íslendingur í þræðinum rifjar upp hversu gott það hafi verið að aka um þjóðvegi landsins þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Þá hafi engir ferðamenn verið fyrir en allt hafi svo farið í bál og brand þegar landamærin opnuðu aftur.
„Veistu af hverju Íslendingar eru óþolinmóðir í umferðinni? Túristar stoppa oft á miðjum veginum án nokkurrar ástæðu þegar þeir sjá eitthvað nýtt, án þess að pæla í því hvað er að gerast í kringum þá,“ segir hann og heldur áfram:
„Ég reyni eins og ég get að komast fram fyrir túrista í umferðinni. Ég vil frekar hafa þá fyrir aftan mig, það er betra að vita af þeim fyrir aftan en að þurfa að bregðast við tilviljanakenndum ákvörðunum þeirra þegar þeir eru fyrir framan mig.“