Maðurinn, Lee Claydon, lést eftir fall af áhorfendasvölum leikvangsins og var hann úrskurðaður látinn á staðnum. Talið er að um hundrað þúsund manns hafi verið á tónleikunum þegar slysið varð.
Clive Claydon, faðir Lee, segir við breska blaðið The Sun að sonur hans hafi að öllum líkindum runnið til á bjór sem hafði sullast niður í stúkunni. „Það var mjög sleipt og Lee bara rann og féll niður,“ segir hann.
Sjálfur var Clive ekki viðstaddur tónleikana en Lee var á tónleikunum með bróður sínum og sonum hans.
„Mér hefur verið sagt að þetta hafi verið slys sem beið eftir að gerast. Þetta var hræðilegt, hræðilegt slys en það eina sem ég veit er að það var bjór út um allt og hann rann til. Ég er svo miður mín og skil ekki hvernig þetta gat gerst.“
Oasis-bræðurnir Liam og Noel Gallagher sendu frá sér yfirlýsingu eftir slysið þar sem þeir sendu aðstandendum samúðarkveðjur.
Clive segist vilja fá svör frá forsvarsmönnum Wembley vegna málsins.
„Ég hef aldrei komið á Wembley en maður skildi ætla að öryggismálin þar séu í lagi. Hann hefur aldrei neytt eiturlyfja í lífi sínu en hafði örugglega drukkið bjór, hver gerir það ekki á tónleikum? En hann var sannarlega ekki drukkinn. Ég vil svör frá Wembley.“