fbpx
Þriðjudagur 05.ágúst 2025
Fréttir

„Þeir sem eru sem lengst sokknir í Woke hugmyndafræðina eru mjög hrokafullir en sjá það ekki sjálfir“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 5. ágúst 2025 08:14

Sólveig Anna Jónsdóttir, DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segist ekki hafa passað inn í skólakerfið og að hún hafi verið sérstök týpa sem unglingur, en móðurhlutverkið hafi gjörbreytt henni. Sólveig, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir það hafa komið sér á óvart hve mikil viðbrögð það vakti þegar hún hjólaði í Hallgrím Helgason í umræðuþætti fyrr á árinu og gagnrýndi þar harkalega Woke-hugmyndafræðina.

„Það kom mér kannski á óvart hvað þetta vakti mikla athygli, en það er augljóst á viðbrögðunum að mjög margir voru sammála mér í því sem ég sagði þarna. Hallgrímur tilheyrir því sem stundum er kallað: „The brahim left”, sem er þessi prógressíva elíta sem er með hátt menntunarstig og hefur aðgang að miklum tækifærum og nýtur alls þess besta sem vestrænt samfélag hefur upp á að bjóða. Fólk sem segist vera vinstrisinnað, en er komið með mjög stóran „blind spot” og úr tengslum við fátækt vinnandi fólk. Fólk úr þessari kreðsu er mjög vinstrisinnað á tyllidögum og mætir til dæmis í 1. maí gönguna og syngur nallann og er stolt af því að vera mikið baráttufólk. En alla hina dagana hefur þetta fólk engan áhuga á baráttu láglaunsfólks. Ég hef upplifað það aftur og aftur í störfum mínum fyrir Eflingu að mæta svokölluðu vinstra fólki, sem er samt úr öllum tengslum við það sem á að vera vinstri pólitík. Bilið á milli láglaunafólks og menntaelítunnar hefur sjaldan verið meira og breikkar bara. Það er orðin mikil gjá á milli menningar- og menntaelítu sem þykist vera vinstri sinnuð og þeirra sem raunverulega eru að berjast fyrir þá sem minnst mega sín,” segir Sólveig, sem segir flest alvöru vinstra fólk orðið algjörlega dauðuppgefið á Woke.

„Það er mikið af sófa-baráttumönnum á netinu sem láta mikið fyrir sér fara á samfélagsmiðlum. Fólk sem er með barnalegan hroka og segir að allir sem eru ósammála þeim séu á röngum stað í tilverunni. Þeir sem eru sem lengst sokknir í Woke hugmyndafræðina eru mjög hrokafullir en sjá það ekki sjálfir. Svo þegar bent er með gagnrýnum hætti á það sem hefur farið úrskeiðis er bara sagt að það sé verið að misskilja hugtakið og það að vera Woke sé bara að vera góð manneskja og allt sem því fylgi sé gott. Það að ég hafi vaðið í þetta mál og sagt það sem ég var að hugsa þýddi að ég var allt í einu orðin níðingur og vinur fasista og nýfrjálshyggju. Það sjá allir að þetta stenst enga skoðun og venjulegt fólk leggur bara á flótta. Ef fólk vinstra megin við línuna ætlar að ná einhverju fram verður þessi vitleysa að hætta. Þessar dyggðaskreytingar og hroki verður að hætta.”

Passaði illa í skólakerfið

Sólveig talar í þættinum um vegferð sína, meðal annars skólagönguna og árin þegar hún fór að fara út fyrir normið.

„Ég var ung þegar mér var farið að finnast leiðinlegt að fara í skólann og þar byrjaði ég að finna óráðþægnina í mér. Ég var stillt og prúð að mestu, en það var erfitt að fá mig til að gera hluti sem ég vildi ekki gera. Smám saman byrjaði að virkjast í mér þessi uppreisnarandi, þar sem mér féll mjög illa í geð að láta undan pressu um hvernig ég átti að vera. Ég passaði illa inn í skólakerfið og fannst agalegt að fara í skólann. Það sem gekk vel, það gekk mjög vel, en það sem ég vildi ekki læra gekk illa. Ég var svona „counter culture” unglingur, en ég lenti aldrei í átökum við kennara eða var ókurteis. En ég tilheyri þeim hópi fólks sem horfir til baka á tímann í skóla og sér að það passaði ekki inn. Ég þóttist oft vera veik og fleira í þeim dúr,“ segir Sólveig um unglingsárin í Réttarholtsskóla.

„Ég var á þeim árum farin að aðhyllast mjög sérstakan stíl í klæðaburði og hafði greinilega þörf fyrir að láta aðra sjá að ég væri spes týpa. Ég var mjög föl, með tætt úfið svart hár og mjög mikið máluð, mjög mikil augnmálning og ég vildi einhvern veginn tjá mig með þessum hætti. Með þessum hætti hélt ég að ég væri að gefa til kynna að ég væri ákveðin týpa.”

Varð móðir ung

Sólveig varð ung móðir og segir að það hafi gjörbreytt lífi sínu.

„Ég varð ung móðir, sem er það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég var 21 árs gömul þegar sonur minn fæðist og hafði þá í raun veri týnd. En þegar ég fékk hann í hendurnar fann ég áður óþekkta ábyrgðartilfinningu sem hafði mjög góð áhrif á mig. Ég hætti á djamminu og fór þess í stað í móðurhlutverkið og leit í raun aldrei til baka eftir það.”,

Sólveig Anna bjó um tíma í Bandaríkjunum og segir að þar hafi sýn hennar á samfélög og stjórnmál breyst mjög mikið:

„Ég hafði verið róttæk manneskja og sósíalisti, án þess að hafa farið mikið ofan í hvað það nákvæmlega þýddi. Eftir því sem ég fylgdist meira með stjórnmálunum í Bandaríkjunum og stríðsrekstrinum þar fékk ég meiri og dýpri áhuga. Ég varð á þessum tíma mjög andkapítalísk og andheimsvaldasinnuð og kom miklu róttækari heim en ég hafði verið áður en ég fór út. Þegar ég fór að fá skýrari sýn á samfélagið sá ég að það þyrfti að breyta miklu á Íslandi. Skert kjör setja fólk í hlekki og eru aðför að heilsu þess. Viðvarandi fjárhagsáhyggjur hafa alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks og þeir sem ekki þekkja að vera í þessari stöðu eiga mjög erfitt með að skilja hversu alvarlegt þetta er. Ég fékk staðfestingu á þessu þegar ég hóf störf hjá Eflingu og fékk fyrir alvöru sýn inn í líf láglaunafólks.”

Baráttan hefur tekið á

Sólveig segir í þættinum að baráttan með Eflingu hafi tekið talsvert á á undanförnum árum. Hún segir það algjört lykilatriði í baráttunni að vera umvafin góðu fólki og það sé eitt það stærsta í að halda baráttuandanum á lífi.

„Ég var hressari og það var meiri fíflagangur og grín í mér áður en ég fór í þessa baráttu og sérstaklega áður en þetta varð hatrammt. Ég hugsa stundum til baka og skil ekki alveg hvernig ég hef farið að þessu. Ég veit að það þarf oft að færa fórnir í pólitískri baráttu, en sumt af þessu var hálfhræðilegt þegar ég lít til baka,” segir Sólveig, sem segist hafa þurft að brynja sig í öllum átökum undanfarinna ára. Það hafi tekið hana tíma að átta sig á því að hún yrði að finna leiðir til að verja sjálfa sig.

„Ég hafði enga brynju til að byrja með nema mína pólitísku sannfæringu. Ég hef með tímanum þurft að brynja mig, en maður má heldur ekki ganga of langt í því og láta eins og hlutir snerti mann ekki. Ég get aldrei látið eins og ekkert sé og er í raun friðlaus þangað til ég er búin að koma frá mér upplýsingum sem ég tel að fólk verði að heyra. Ég er mjög stolt af árangri okkar og því sem við höfum náð að gera. Það er mikil hughreysting að vita af frábæru fólki sem treystir mér og kýs að starfa með mér. Það er ómetanlegt og engin manneskja kæmist í gegnum svona ein síns liðs.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Sólveigu og öll viðtöl og podköst Sölva á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli

Höfðu bókstaflega hendur í hári morðingja – Handtekinn í klippingu fyrir hrottafengin morð sem vöktu þjóðarathygli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hörður hafnar með öllu ásökunum Haddar og ætlar í mál dragi hún orð sín ekki til baka

Hörður hafnar með öllu ásökunum Haddar og ætlar í mál dragi hún orð sín ekki til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Meirihluti þjóðarinnar hlynntur veiðigjaldafrumvarpinu, beitingu 71. gr. og telur stjórnarflokkana hafa staðið sig betur

Meirihluti þjóðarinnar hlynntur veiðigjaldafrumvarpinu, beitingu 71. gr. og telur stjórnarflokkana hafa staðið sig betur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Litlu munaði að hnífaárás í Reykjanesbæ endaði með manndrápi – Maður í stjórnlausri neyslu réðist á fjölskylduföður

Litlu munaði að hnífaárás í Reykjanesbæ endaði með manndrápi – Maður í stjórnlausri neyslu réðist á fjölskylduföður