Í nýrri færslu á Facebook-síðu Eldfjalla og náttúruvárhóps Suðurlands kemur fram að svo virðist sem að eldgosinu á Reykjanesskaga sem hófst 16. júlí síðastliðinn sé lokið.
Segir í færslunni að þess níunda eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni á 19 mánuðum virðist nú vera lokið. Engin glóð hafi verið sjáanleg í gígnum seinnipart nætur, en þó finnist enn glóandi hraun innan hraunbreiðunnar, enda taki hún nokkurn tíma að kólna.
Enn fremur kemur fram að hraunrennsli virtist síðustu daga hafa minnkað nokkuð stöðugt og fyrir nokkrum dögum hafi hraun hætt að leka á yfirborði út úr gígnum. Áfram hafi þó mallað í gígnum og hafi því nú hlaðist upp ansi myndarlegur og symmetrískur klepragígur. Gosið hafi staðið yfir í 19 daga og sé því þriðja lengsta gosið í goshrinunni á eftir gosunum í mars (53 dagar) og maí (25 dagar) á síðasta ári. Rúmmál nýja hraunsins sé líklega á bilinu 30-35 milljón rúmmetrar og þekir það ríflega 3,5 ferkílómetra. Hraunið hafi runnið að miklu leyti yfir hraun úr fyrri gosum en hafi þó nú gjörbreytt umhverfi Fagradals og í raun fyllt dalbotninn af hrauni, norðan við Fagradalsfjall.
Veðurstofa Íslands hefur hins vegar enn sem komið er ekki lýst yfir goslokum. Í tilkynningu frá henni sem send var út á sjöunda tímanum í morgun kemur meðal annars fram að á vefmyndavélum mrgi sjá að enn sé virkni í gígnum. Óróinn hafi haldist mjög lítill í alla nótt. Hraunjaðrar breytist lítið. Enn sé hætta á skyndilegum framhlaupum við jaðra hraunsins. Þó dregið hafi verulega úr gosvirkni sé ennþá möguleiki á mengun frá gosmóðu.