Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segist ekki vera hlynnt því að stofnuð verði sérstök leyniþjónusta á Íslandi. Er þetta á skjön við það sem kom fram í frétt í The Economist. Þar segir orðrétt: „Landið gæti einangrast ef sæstrengir þess yrðu rofnir. Það hefur enga leyniþjónustu til að elta uppi skemmdarvarga og njósnara. Þorgerður segist styðja stofnun slíkrar [leyniþjónustu],“ segir í greininni í The Economist. Morgunblaðið greinir frá en Vísir greindi fyrst frá.
Þorgerður segir í viðtali við Morgunblaðið að mikilvægt sé að Ísland efli eigin greiningargetu til að verða ekki að öllu leyti háð öðrum þjóðum við mat á hættu og ógn sem steðjar að. Það sé hægt að gera með því að efla netöryggissveitina CERT-IS og greiningardeild Ríkislögreglustjóra.
Um viðkvæmt mál sé að ræða en Ísland geti ekki leyft sér neina einfeldni á þessu sviði í ljósi þeirrar heimsmyndar sem við blasi. „Spurð að því hvernig hún sjái fyrir sér að efla CERT-IS og greiningardeild Ríkislögreglustjóra vísar utanríkisráðherra til samráðshóps þingmanna vegna mótunar öryggis- og varnarstefnu sem senn mun skila af sér niðurstöðum vinnu sinnar. Vinna hópsins verður grunnur að stefnu ríkisins í varnar- og öryggismálum,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Rætt er við Arnór Sigurjónsson, sérfræðing í varnarmálum, sem tekur undir með Þorgerði um að efla þurfi greiningargetu á hérlendis á þessu sviði. Hann tekur ekki afstöðu til þeirrar spurningar hvort þörf sé á íslenskri leyniþjónustu. Skemmdarverkastarfsemi Rússa sé ógn sem Ísland þurfi að bregðast við með aukinni greiningargetu.