Jesse Baraka Botha lést úr malaríu á Landspítalanum þann 18. ágúst eftir ferðalag til Úganda. Jesse hefði orðið tíu ára þann 20. ágúst.
Vinir fjölskyldunnar hafa stofnað styrktarsíðu og reikning fyrir fjölskylduna til að standa undir kostnaði við útför og legstein.
„Elsku Jesse lést skyndilega á Barnaspítala Hringsins eftir skammvinn veikindi 18. ágúst síðastliðinn, tveimur dögum fyrir 10 ára afmælið sitt. Fjölskyldan stendur frammi fyrir ómældum missi og sorg og ljóst er að framundan eru aukin útgjöld tengd andláti hans.
Vegna fjölda fyrirspurna þeirra sem vilja styrkja fjölskylduna á þessum erfiðu tímum hefur verið opnaður styrktarreikningur:
Kennitala: 200390-3349
Reikningsnúmer: 0370-22-116895Allur stuðningur, stór sem smár, er fjölskyldunni ómetanlegur.”
Reikningurinn er á nafni Kristjönu Erla Zöega Björnsdóttur, vinkonu föðurfjölskyldu Jesse sem mun sjá um að greiða fyrir jarðarförina.
Leikmenn KR í meistaraflokki karla í knattspyrnu minntust Jesse og spiluðu með sorgarbönd í leik liðsins við Stjörnuna mánudaginn 25. ágúst. Mínútuþögn var einnig fyrir leikinn. Fjölskylda Jesse sótti leikinn.
„Jesse var hjá okkur mörgum stundum og nánast á öllum leikjum. Auðvitað spilaði hann upp yngri flokkana hjá okkur samhliða Leikni. Það kom aldrei neitt annað til greina en að vera með stund fyrir Jesse. Það er mikill söknuður að virkilega góðum dreng,“ segir Pálmi Rafn Pálmason, framkvæmdastjóri KR í samtali við Vísi.
Kvennalið KR spilaði með sorgarbönd til minningar Jesse þegar þær kepptu gegn Gróttu fimmtudaginn 21. ágúst. Laugardaginn 23. ágúst var einnig mínútuþögn til að minnast Jesse fyrir leik Leiknis gegn ÍR í Lengjudeild karla.