Eyþór Gunnarsson tónlistarmaður lýsir í pistli á Facebook óánægju yfir því að eiginkona hans söngkonan Ellen Kristjánsdóttir hafi ekki verið fengin til að flytja lagið Einhvers staðar einhvern tímann aftur á tónleikum RÚV og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Klassíkin okkar, sem fram fóru í gærkvöldi. Í ljósi þess að Ellen flutti lagið upprunalega og þetta er eitt af þeim lögum sem er hún hvað þekktust fyrir að flytja veltir Eyþór fyrir sér hvort fjarvist hennar hafi eitthvað með aldur að gera. Vísar hann þá ekki síst til þess að Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður, sem er eldri en Ellen, hafi verið fenginn til að syngja lag sem hann er þekktur fyrir að flytja.
Magnús Eiríksson samdi lagið Einhvers staðar einhvern tímann aftur og sömuleiðis texta lagsins. Eftir því sem DV kemst næst kom lagið fyrst út á plötu hljómsveitarinnar Mannakorn, Brottför kl. 8, árið 1979. Meðal meðlima sveitarinnar voru Magnús og Pálmi Gunnarsson söngvari og bassaleikari. Ellen var ekki meðlimur í sveitinni þegar hún tók fyrst til starfa en þegar þessi plata kom út hafði hún gengið til liðs við sveitina og mun hafa, samkvæmt upplýsingum DV, sungið umrætt lag á plötunni.
Ellen átti eftir þetta að flytja lagið margoft og ljóst virðist að hún gæddi það fyrst lífi og þótt til að mynda bæði Magnús og aðrar söngkonur hafi flutt lagið er það lang þekktast í flutningi Ellenar.
Tónleikar gærkvöldsins, Klassíkin okkar, hófust einmitt á Einhvers staðar einhvern tímann aftur. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék en það var söngkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir sem söng en hún er þekktust undir listamannsnafninu GDRN.
Lokalag tónleikanna var hins vegar Hvers vegna varst´ ekki kyrr en það var áðurnefndur Pálmi Gunnarsson sem söng lagið. Lag og texti eru eftir Jóhann G. Jóhannsson en lagið kom fyrst út á plötu Pálma, sem ber sama titil og lagið, árið 1980. Umrætt lag er lang þekktast í flutningi Pálma og hann er tengdur því svipað sterkum böndum og Ellen er tengd Einhvers staðar einhvern tímann aftur.
Eyþór hefur pistil sinn einmitt á því að minna á það:
„Ég get ekki annað en spurt; hefði einhverjum dottið í hug að biðja annan en Pálma Gunnarsson að syngja lagið Hvers vegna varst’ ekki kyrr á tónleikunum Klassíkin okkar? Auðvitað ekki. Þetta er lag sem allir tengja við hann. Á sama hátt er lagið Einhversstaðar, einhvertíma aftur tengt Ellen Kristjánsdóttur og það er ekki eins og hún sé hætt að syngja. Hún hefur reyndar aldrei verið betri.“
Eyþór segist þar af leiðandi ekki skilja þá ákvörðun að láta aðra söngkonu syngja einmitt þetta lag:
„Hvers vegna söng hún ekki eitt af sínum eigin? Ef þetta lag hefur öðlast þann sess að teljast „klassíkin okkar“, á þá ekki Ellen einhvern þátt í því eða er það þriggja ára gömul endurútgáfa sem skipti sköpum? Með fullri virðingu fyrir hinni yndislegu GDRN.“
Eyþór kemur óánægju sinni á framfæri við RÚV, Sinfóníuhljómsveitina, Guðna Tómasson framkvæmdastjóra sveitarinnar og annan kynna tónleikanna í gærkvöldi og Bjarna Frímann Bjarnason, sem stjórnaði sveitinni á tónleikunum, með því að merkja þessa aðila í færslu sinni. Hann veltir fyrir sér að lokum hvort valið hafi eitthvað með aldur að gera en Ellen er á sjötugsaldri en GDRN á þrítugsaldri. Pálmi Gunnarsson er hins vegar kominn á átttræðisaldur og er 9 árum eldri en Ellen. Eyþór spyr því að lokum:
„Eða er það er kannski bara meira hip (svalara, flottara, innsk. DV) að vera eldri karl en eldri kona.“